Endurreisn WOW air hefur verið frestað fram í desember vegna hræringa á flugmarkaðinum en miðasala hefst í nóvember. Vefmiðillinn FlightGlobal hefur þetta eftir forsvarsmönnum flugfélagsins en upphaflega stóð til að hefja flugrekstur í október.

„Töluverðar hræringar hafa átt sér stað á markaðinum frá því að tilkynnt var um endurreisn WOW air. Fækkun flugfélaga gerir okkur kleift að nálgast flugrekstrarbirgðir sem voru ekki á markaðinum síðla sumars. WOW air mun nota tækifærið til að kaupa og endurhanna fyrstu flugvélina með hag viðskiptavina og hluthafa að leiðarljósi,“ segir í svörum flugfélagsins en á síðustu vikum hafa lággjaldaflugfélög á borð við Thomas Cook, XL Airways og Adria Airways orðið gjaldþrota.

WOW air verður sem kunnugt er endurreist af athafnakonunni Michele Roosevelt Edwards í gegnum bandaríska félagið US Aerospace Associates LLC sem náði samkomulagi við þrotabú hins fallna flugfélags.

USAeropsace er bandarískt eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í fluggeiranum en Edwards er stærsti hluthafi félagsins og stjórnarformaður. Hún verður einnig stjórnarformaður WOW air LLC.

Félagið verður staðsett í Washington Dulles með aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og skrifstofu í Reykjavík. Að sögn Edwards er búið að tryggja flugfélaginu 85 milljóna dala fjármögnun.