Lággjaldaflugfélagið Wizz Air hefur aflýst öllu flugi til og frá Moldóvu frá og með 14. mars næstkomandi vegna spennunnar í samskiptum Rússa við yfirvöld í Moldóvu.
Moldóvar eru sagðir óttast það að Rússar muni mögulega ráðast inn í landið, en sjálfir hafa Rússar þvertekið fyrir vangaveltur þess efnis.
Guardian greinir frá því að forsvarsmenn Wizz Air setji öryggi farþega og starfsfólks í fyrsta sæti. Segja forsvarsmenn félagsins að vaxandi spenna á svæðinu hafi gert það að verkum að þessi erfiða, en jafnframt ábyrga, ákvörðun var tekin.
Yfirvöld í Moldóvu eru sögð harma ákvörðun flugfélagsins, en aðeins eru liðnir 14 dagar síðan sumaráætlun Wizz Air vegna flugs til og frá Moldóvu var lögð fram til samþykktar. Telja yfirvöld að engin hætta sé á ferðum og hægt verði að tryggja öryggi flugfarþega í lofthelgi Moldóvu.