AT&T mun sameina WarnerMedia við Discovery til að skapa fjölmiðil sem getur keppt við streymisveiturnar Disney og Netflix. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Úr verður næststærsta fjölmiðlasamsteypa í heimi miðað við tekjur á eftir Disney. Samanlagðar tekjur Discovery og WarnerMedia námu 41 milljarð Bandaríkjadala árið 2020 samanborið við 65 milljarða Bandaríkjadala veltu hjá Disney.

Þetta skref er stigið þremur árum eftir að AT&T keypti móðurfélag CNN, HBO og Warner Bros á 85,4 milljarða Bandaríkjadala. AT&T mun eiga 71 prósent hlut í sameinuðu fyrirtæki.

Á undanförnum 18 mánuðum hafa Disney, Apple, WarnerMedia, Comcast, Discovery og fleiri hleypt af stokkunum streymisveitum fyrir alþjóðlegan markað.

AT&T og Discovery samþykktu að greiða hvort öðru háar fjárhæðir ef af sameiningu yrði ekki, eða 720 milljónir Bandaríkjadala og 1,8 milljarða Bandaríkjadala.