Einn af stofnendum WAB air segir að hópurinn hafi ekki átt í neinum viðræðum við bandarísku athafnakonuna Michele Ballarin, sem keypti helstu eignirnar úr þrotabúi WOW air. Fjármögnun félagsins sé á lokametrunum.

Markaðurinn greindi frá því að hópur fjárfesta og tveggja fyrrverandi stjórnenda hjá WOW air ynni um þessar mundir, í samfloti við írskan fjárfestingarsjóð sem er í eigu dóttur eins af stofnendum Ryanair, að stofnun nýs íslensks lággjaldaflugfélags á grunni WOW air. Nýja félagið bæri heitið WAB air.

Hópurinn hefði leitað til að minnsta kosti tveggja hérlendra banka og óskað eftir láni upp á 31 milljón evra, jafnvirði tæplega fjögurra milljarða króna, til þess að reka hið nýja flugfélag. Fjárfestahópurinn hyggðist í kjölfarið nýta sér lánsféð sem eigið fé til þess að slá lán hjá svissneskum banka. Lánið frá íslenska bankanum yrði þá á læstum vörslureikningi í heilt ár.

„Þetta er á lokametrunum og allt samkvæmt áætlun,“ segir Sveinn í samtali við Fréttablaðið, spurður hvernig gangi að landa fjármögnun fyrir flugreksturinn en hann gat ekki farið nánar út í það hvernig fjármögnuninni yrði háttað.

Ballarin var á landinu í síðustu viku og fundaði meðal annars með fyrrverandi stjórnendum WOW air samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Sveinn Ingi segir að hópurinn hafi ekki átt í neinum viðræðum við Ballarin.

Áætlanir WAB air miða að því að nýja lággjaldaflugfélagið hefji rekstur í haust og verði með sex vélar í rekstri sínum fyrsta árið. Þær fljúgi til fjórtán áfangastaða í Evrópu og Ameríku.

„Það er í góðum farvegi, við erum vel tengdir þegar kemur að þeim efnum,“ segir Sveinn Ingi, spurður hvernig gangi að útvega leiguvélar. Þá sé umsóknin um flugrekstrarleyfið enn í vinnslu en hópurinn sótti um það fyrir um mánuði síðan.