Stofnendur WAB air hafa tryggt sér skrifstofuhúsnæði fyrir starfsemi ný íslensk flugfélags og eru byrjaðir að ráða til sín starfsfólk.

Sveinn Ingi Steinþórsson, einn af stofnendum WAB air, staðfestir í samskiptum við Fréttablaðið að félagið sé komið með aðstöðu og að starfsemi í skrifstofurýminu sé hafin. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða um 600 fermetra skrifstofuhúsnæði í Garðabæ og er félagið búið að ráða til sín nokkra starfsmenn.

Leiðrétt kl 16.41

Fram hefur komið í frétt Vísis að skrifstofan sé staðsett í Hafnarfirði og sé um 300 fermetrar að stærð.

Að baki WAB air stendur hópur fjárfesta og tveir fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air ásamt írskum fjárfestingarsjóði sem er í eigu dóttur eins af stofnendum Ryanair. Áætlanir WAB air miða að því að nýja lággjaldaflugfélagið hefji rekstur í haust og verði með sex vélar í rekstri sínum fyrsta árið. Þær fljúgi til fjórtán áfangastaða í Evrópu og Ameríku.

Í lok júlí sagði Sveinn Ingi í samtali við Fréttablaðið að fjármögnun félagsins væri á lokametrunum og að leiga á flugvélum væri í góðum farvegi. Þá væri umsóknin um flugrekstrarleyfið enn í vinnslu en hópurinn sótti um leyfið í maí.