Hópurinn sem stendur að baki WAB air hefur boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem kynnt verður nýtt nafn flugfélagsins og farið yfir framtíðaráætlanir félagsins. Blaðamannafundurinn verður haldinn í Norðurljósasal Perlunnar kl 10.30 á morgun.

Fréttablaðið greindi frá því í sumar að stofnendur WAB air hefðu tryggt sér skrifstofuhúsnæði í Hafnarfirði fyrir starfsemi ný íslensk flugfélags og væru byrjaðir að ráða til sín starfsfólk. Þá greindi Túristi nýlega frá því að Daníel Snæbjörnsson, sem fór um árabil fyrir leiðakerfi WOW air, hefði verið ráðinn til WAB air eftir stutt stopp hjá Icelandair.

Hópurinn samanstendur fjárfestum og fyrrverandi stjórnenda hjá WOW air ásamt írskum fjárfestingarsjóði sem er í eigu dóttur eins af stofnendum Ryanair. Fyrrverandi stjórnendur WOW air eru þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, sem stýrði hagdeild WOW air og sat í framkvæmdastjórn flugfélagsins, og Arnar Már Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air.

Sagt var frá því í Markaðnum að hópurinn hefði leitað til að minnsta kosti tveggja hér­lendra banka og óskað eftir láni upp á 31 milljón evra, jafn­virði tæp­lega fjögurra milljarða króna, til þess að reka hið nýja flug­fé­lag.