Arion banki segir að lánasafn bankans til lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafi vaxið umtalsvert á síðustu árum. Stóru bankarnir þrír segjast ekki halda að sér höndum þegar kemur að lánveitingum til lítilla fyrirtækja. Landsbankinn er með þá stefnu að auka markaðshlutdeild í lánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta kemur fram í svörum frá bönkunum.

Kristrún Frostadóttir, fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka og nú þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu á sunnudag að hjá bönkum væru hvatar til að láta ungt fólk taka himinhá fasteignalán en að lítil fyrirtæki ættu helst að reka sig á eigin fé.

„Svo má nefna,“ segir í svari frá Arion banka, „að eftirlitsaðilar hafa dregið úr kröfum um eiginfjárbindingu banka vegna lánveitinga til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem býr til jákvæða hvata til frekari lánveitinga á þessu sviði.“

Landsbankinn segir að liður í markaðssókn sinni til að auka útlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sé betra app sem henti betur þeim markaði sem hafi leitt til aukningar í viðskiptum. „Varðandi samspil útlána og eftirspurnar eftir lánsfé þá fer það eftir aðstæðum hverju sinni og við mat bankans á lánum er horft til þess að fyrirtæki þurfa að hafa áætlanir um hvernig reksturinn mun standa undir aukinni skuldsetningu,“ segir í svarinu.

Íslandsbanki segir að að jafnaði séu gerðar meiri kröfur til eiginfjárframlags hjá nýjum fyrirtækjum með stutta viðskiptasögu eða sem séu að hefja rekstur. „Sem fyrr er bankinn þó opinn fyrir öllum áhugaverðum verkefnum og er hvert mál skoðað vandlega.“