Þetta kemur fram á heimasíðu hagstofunnar. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 14,8 milljarða króna í júlí 2021. Vöruskiptajöfnuðurinn í júlí 2022 er því 16,2 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 253,6 milljarða króna sem er 75,6 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst um 29,4 prósent á tólf mánaða tímabili

Verðmæti vöruútflutnings í júlí 2022 jókst um 7,6 milljarða króna, eða um 11,2 prósent, frá júlí 2021, úr 68,1 milljarði króna í 75,8 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 7,0 milljarða króna eða 16,5 prósent samanborið við júlí 2021.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili frá ágúst 2021 til júlí 2022 var 904,6 milljarðar króna og jókst um 205,3 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 29,4 prósent. Iðnaðarvörur voru 57 prósent alls vöruútflutnings síðustu 12 mánuði og jókst verðmæti þeirra um 53,9 prósent frá fyrra 12 mánaða tímabili. Sjávarafurðir voru 35 prósent alls vöruútflutnings síðustu 12 mánuði en verðmæti þeirra jókst um 5,8 prósent frá fyrra 12 mánaða tímabil. Verðmæti útflutnings á eldisfiski jókst um 3,7 milljarða á milli 12 mánaða tímabila, eða um 10,4 prósent, og er nú 4 prósent af heildarútflutningsverðmæti á síðustu 12 mánuðum.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 32,0 prósent á tólf mánaða tímabili

Verðmæti vöruinnflutnings nam 106,8 milljörðum króna í júlí 2022 samanborið við 82,9 milljarða í júlí 2021 og jókst því um 23,8 milljarða króna eða um 28,7 prósent. Verðmæti innflutts eldsneytis nam 22,4 milljörðum og jókst um 15,2 milljarða króna (212 prósent), verðmæti hrá- og rekstrarvöru nam 28,8 milljörðum króna og jókst um 5,9 milljarða (25,9 prósent) og verðmæti fjárfestingarvara (utan flutningstækja) var 21,4 milljarðar króna sem er aukning um 3,5 milljarða króna (19,4 prósent) samanborið við júlí 2021.

Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili frá ágúst 2021 til júlí 2022 var 1.158,2 milljarðar króna og jókst um 281,0 milljarð króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 32 prósent á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á tímabilinu var mest í flutningatækjum, hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti.

Meðaltal gengisvísitölu á tólf mánaða tímabili var 191,5 og var gengið 4,7 prósent sterkara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 200,9. Gengið styrktist um 2,5 prósent í júlí (187,0) samanborið við júlí 2021 (191,8).