Fluttar voru út vörur fyrir 61,5 milljarða króna í mars og inn fyrir 83 milljarða króna cif (76,8 milljarða króna fob), samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Vöruviðskiptin í mars, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um tæpa 21,4 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif-verðmæti óhagstæð um 19,4 milljarða króna í mars 2020 á gengi hvors árs fyrir sig.

Vöruviðskiptajöfnuðurinn í mars 2021 var því 2 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári.

Útflutningur jókst um 9 prósent

Verðmæti vöruútflutnings í mars 2021 jókst um 5 milljarða króna, eða um 8,8 prósent, frá mars 2020, úr 56,5 milljörðum króna í 61,5 milljarða, segir í tilkynningu.

Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 579 milljónir króna, eða 2,2 prósent samanborið við mars 2020, útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 1,1 milljarð eða 4,2 prósent en útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða jókst hins vegar um 103,4 prósent eða um 3,4 milljarða króna, úr 3,2 milljörðum í mars 2020 í 6,6 milljarða í mars 2021, og skýrist það nær eingöngu af mikilli aukningu í útflutningsverðmæti fiskeldis sem jókst um 100,3 prósent, úr 2,7 milljörðum í mars 2020 í 5,5 milljarða í mars 2021.

Verðmæti vöruinnflutnings nam 83 milljörðum króna í mars 2021 samanborið við 76 milljarða í mars 2020. Verðmæti innfluttra mat- og drykkjarvara jókst um 18,8 prósent og annarra neysluvara um 41,2 prósent samanborið við mars 2020.

Einnig jókst verðmæti hrá- og rekstrarvara um 14,3 prósent á meðan verðmæti annarra liða dróst saman, þar á meðal eldsneytis og smurolía um 33,5 prósent en verðmæti bensíns, þ.m.t. flugvélabensíns, jókst um 5,6 prósent.