Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 5,7 milljarða í desember 2020 á gengi þess árs. Vöruskiptajöfnuðurinn versnaði því um 12,8 milljarða milli ára. Vöruskiptajöfnuður í fyrra var neikvæður um 237,2 milljarða sem er 86,1 milljarði óhagstæðari jöfnuður en á árinu 2020.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar dró saman með inn- og útflutningi í desember.

Verðmæti útflutnings jókst um 22,4 prósent 2021
Verðmæti vöruútflutnings í desember 2021 jókst um 17 milljarða, eða um 28,5 prósent, frá desember 2020, úr 59,6 milljörðum í 76,6 milljarða. Verðmæti útflutnings iðnaðarvara jókst um 17,2 milljarða, eða 59,1 prósent samanborið við desember 2020, og þar munar mestu um ál.

Verðmæti vöruútflutnings á árinu 2021 var 759,1 milljarður króna og hækkaði um 138,9 milljarða króna milli ára eða um 22,4 prósent á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 52 prósent alls vöruútflutnings 2021 og var verðmæti þeirra 32,9 prósentum meira en 2020. Sjávarafurðir voru 39 prósent alls vöruútflutnings á síðasta ári og jókst verðmæti þeirra um 8,5 prósent á milli ára. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 6,8 milljarða á milli ára og var um 5 prósent af heildarútflutningsverðmæti ársins 2020.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 29,2 prósent 2021
Verðmæti vöruinnflutnings nam 95,1 milljarði í desember 2021 samanborið við 65,3 milljarða ári fyrr og jókst um 29,8 milljarða á milli ára. Verðmæti innfluttra fjárfestingavara jókst um 4,9 milljarða (33,2 prósent), verðmæti eldsneytis um 6,7 milljarða (303,3 prósent) og verðmæti flutningstækja um 7,2 milljarða (103,1 prósent).

Verðmæti vöruinnflutnings á síðasta ári var 996,4 milljarðar og jókst um 224,9 milljarða milli ára eða 29,2 prósent. Aukningin 2021 var mest í hrá- og rekstrarvörum, fjárfestingarvörum og flutningatækjum.

Meðaltal gengisvísitölu á árinu 2021 var 196,1 og var gengið 2,4 prósentum sterkara en á árinu 2020 þegar meðaltal gengisvísitölu var 201. Gengið styrktist um 2,3 prósent í desember (194,5) samanborið við desember 2020 (199,1).

Um bráðabirgðatölur er að ræða fyrir desember og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar.