Fluttar voru út vörur fyrir 76,8 milljarða fob í apríl 2022 og inn fyrir 90,6 milljarða cif (84,0 milljarða fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í apríl, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 13,8 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 11,4 milljarða króna í apríl 2021 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í apríl 2022 var því 2,3 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 241,5 milljarða króna sem er 86,6 milljarða króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst um 31,1 prósent á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í apríl 2022 jókst um 15.4 milljarða, eða um 25,0 prósent, frá apríl 2021, úr 61,5 milljörðum í 76,8 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 12,3 milljarða eða 42,4 prósent samanborið við apríl 2021.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili var 851 milljarður og jókst um 202 milljarða miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 31,1 prósent á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 54 prósent alls vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili og var verðmæti þeirra 50,1 prósent meira en á tólf mánaða tímabili ári fyrr. Sjávarafurðir voru 37 prósent alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 12,5 prósent á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 7,9 milljarða á milli tólf mánaða tímabila, eða um 24,5 prósent, og mælist 5 prósent af heildarútflutningsverðmæti á tólf mánaða tímabili.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 35,9 prósent á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 90,6 milljörðum í apríl 2022 samanborið við 72,9 milljarða í apríl 2021 og jókst um 17,7 milljarða eða 24,3 prósent. Verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 7,4 milljarða (31,5 prósent) og verðmæti fólksbifreiða um 4,5 milljarða. Verðmæti eldsneytis jókst um 3,5 milljarða (97,3 prósent).

Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili var 1.092,5 milljarðar og jókst um 288,6 milljarða miðað við tólf mánaða tímabili ári fyrr eða 35,9 prósent á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á tímabilinu var mest í flutningatækjum, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum.

Meðaltal gengisvísitölu á tólf mánaða tímabili var 193,2 og var gengið 5,1 prósent sterkara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 203,6. Gengið styrktist um 4,2 prósent í apríl (187,9) samanborið við apríl 2021 (196,2 prósent).