Halli á vöruviðskiptum var 15,5 milljarðar í maímánuði sem leið og tæplega fjórfaldaðist samanborið við maí á síðasta ári, en þá var hallinn 4,2 milljarðar. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni.

Fluttar voru út vörur fyrir 61,2 milljarða króna í maí 2021 og inn fyrir 76,8 milljarða króna. Á síðustu 12 mánuðum var vöruskiptajöfnuður óhagstæður um 158,7 milljarða króna. Þrátt fyrir að maí einn og sér hafi sýnt meiri halla en fyrir ári síðan er 12 mánaða jöfnuður 20,4 milljörðum króna hagstæðari jöfnuðurinn en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Aukning innflutnings á síðastliðnu tólf mánaða tímabili er mest í hrá- og rekstrarvörum, fjárfestingarvörum og neysluvörum en á móti er samdráttur í flutningatækjum og eldsneyti.

Sjávarafurðir voru 44 prósent vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 13 prósent á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 7,7 milljarða, eða 30,2 prósent.

Þess má að gengisvísitala1 hækkaði um 8,4 prósent á þessu tólf mánaða tímabili, en það þýðir að krónan veiktist. Gengið styrktist aftur á móti um 5,5 prósent á milli maí 2020 og 2021.