Salan hefur verið ævintýraleg hjá raftækjaversluninni ELKO í vikunni. „Black Friday" eða Svartur fössari er í dag en verslunin er búin að vera með sérstök tilboð í tilefni dagsins alla vikuna.

„Salan í ár hefur fimm til sexfaldast miðað við síðustu ár. Fyrstu vörurnar urðu uppseldar nokkrar mínútur yfir miðnætti í gær, segir Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri ELKO, í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að aftur á móti vanti sölur í verslanirnar sjálfar en að aukningin í netsölu hafi verið gríðarleg. Vörurnar sem seldust upp stuttu eftir að opnað var fyrir tilboðin á miðnætti voru m.a. nokkur hundruð nuddbyssur, tugir sjónvarpa og hundruðir síma.

„Dagurinn í dag fór áberandi sterkari af stað en hinir dagarnir. Við erum búin að afgreiða um tíu þúsund pantanir í vikunni og það er nóg eftir af deginum í dag," segir Gestur.

ELKO hefur verið að afgreiða 1.500 til 3.000 pantarnir á dag í gegnum netverslun sína í vikunni en í venjulegri viku er pantanirnar á bilinu 200 til 400.

Flestar sölurnar eru í gegnum netverslun ELKO en þó eru alltaf raðir til að komast inn í verslanirnar líka en aðeins tíu mega vera inni á sama tíma vegna samkomutakmarkana.
Fréttablaðið/ Anton Brink

Leggja áherslu á netverslun

„Netverslunin okkar er þrettán ára gömul og við erum búin að vera mjög stór í netsölu lengi, en þetta er ótrúleg aukning. Þetta er auðvitað frábær þróun, við þurfum að standa okkur vel í netsölu núna þegar það mega bara tíu vera inn í þessum stóru verslunum okkar. Við leggjum áherslu á netverslunina, ráðleggjum fólki að vera heima og versla frekar á netinu, þó svo að tilboðin gildi einnig í verslunum okkar." Hann segir að þrátt fyrir það þá séu nánast alltaf raðir fyrir utan verslanirnar.

Þrjár vaktir starfa hjá versluninni sem eru einungis í því að pakka og tína sama pantanir af netinu, en þær vinna á sólarhringsvöktum. „Þetta hefur allt gengið merkilega vel í vikunni og við höldum ótrauð áfram á mánudaginn þegar „Cyber Monday" eða Rafrænn mánudagur fer fram," segir Gestur að lokum.