Frumvarp sem átti að veita lífeyrissjóðum rýmri heimildir til fjárfestinga í erlendri mynt dagaði uppi á síðustu dögum vorþings og komst ekki til afgreiðslu.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það ákveðin vonbrigði. „Við höfum líka lagt ríka áherslu á að sjóðirnir fái þessar rýmri heimildir. Það skiptir gríðarlegu máli upp á framhaldið. Þetta kom sannarlega á óvart. Ég get alveg viðurkennt það."

Í sama frumvarpi átt jafnframt að aflétta þeirri skyldu af lífeyrissjóðum að þeim beri að senda öllum sjóðfélögum yfirlit í pósti á hverju ári. Lífeyrissjóðir hafa undanfarin misseri bent áð slík skylda eigi ekki lengur við þar sem upplýsingarnar eru aðgengilegar eftir öðrum leiðum. Bæði málin bíða nú afgreiðslu fram að næsta þingvetri.

„Rétt eins og með heimildirnar í erlendri mynt þá töldum við ríkja einhug um rafræna upplýsingagjöf til sjóðfélaga en þetta fór því miður ekki í gegn.“

Þórey á von á því að málin fái skjóta afgreiðslu á haustþingi þar sem um þau ríki samstaða.„Þetta eru mikilvæg mál og það ætti ekki að vera flókið að afgreiða þetta. En við vitum líka að það voru mörg mál á dagskrá þingsins og mikil pressa innan nefnda að koma málum í gegn. Það er alþekkt. En svo virðist sem þessi mikilvægu hagsmunamál lífeyrissjóðanna hafi hreinlega orðið undir í atinu"