Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að þó svo að hún vonist eftir því að breið samstaða náist um að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í komandi kjaraviðræðum óttist hún að það sé fullmikil skautun á vinnumarkaði til að svo verði raunin. Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður klukkan 19:00 á Hringbraut í kvöld.

„Ég auðvitað vona að það náist breið samstaða í komandi kjaraviðræðum. Mér finnst það liggja í augum uppi að það sé eina vitið,“ segir Svanhildur og bætir við að við höfum verið með talsverða innflutta verðbólgu, þrýsting af húsnæðisliðnum og því þurfi að grípa til talsverðar hagræðingar til að hægt sé að bregðast við launahækkunum án þess að það fari í verðlagið.

„Ég held að við fljótum á feigðarósi ef við ætlum að halda áfram á sömu braut launahækkana eins og við höfum gert undanfarin ár. Við höfum séð fordæmalausa aukningu kaupmáttar þar sem við höfum séð miklar launahækkanir meðan það hefur verið stöðugleiki í verðlagi. Það sem maður óttast er það ástand sem maður þekkir frá fyrri tíð þar sem það urðu víxlverkanir. Verðlag hækkaði, þá hækkuðu laun og þá hækkaði verðlag meira. Þetta var vítahringur sem var erfitt að komast út úr en tókst þó að lokum.“

Hún bætir við að mikilvægt sé að taka ekki þann efnahagslega stöðugleika sem hafi skapast hér síðustu ár sem sjálfsögðum hlut.

„Ég tel að allir þurfi að gera sér grein fyrir í komandi kjarasamningaviðræðum að þessi stöðugleiki sem við höfum búið við að undanförnu er mikils virði og mikilvægt að gera áætlanir sem geta staðist. Þannig ég bara vona að fólk ákveði það svigrúm sem er til staðar. Stjórnvöld geta hjálpað til til dæmis með lækkun á tryggingargjaldinu hvað það varðar. En ég óttast samt að það sé fullmikil skautun á vinnumarkaði til þess að þessi góða framtíðarsýn sem ég sé fyrir mér rætist.“