Forsvarsmenn Volkswagen hafa hvatt Evrópska seðlabankans til þess að flýta áformum sínum um að kaupa skuldabréf stærstu fyrirtækja heims til þess að hjálpa þeim að takast á við áhrif kórónaveirunnar.

Frank Witter, fjármálastjóri þýska bílaframleiðandans, segir í samtali við Financial Times að seðlabankinn eigi að senda „skýr skilaboð“ og kaupa sex til níu mánaða skammtímaskuldir fyrirtækja „eins fljótt og mögulegt er“. Volkswagen er einn helsti útgefandi fyrirtækjaskuldabréfa í Evrópu.

Witter nefnir að verulega hafi dregið úr greiðsluflæði til bílaframleiðandans. Einhverjar fjármögnunarleiðir séu fyrir hendi en þær séu þó ekki eins nytsamar og í venjulegu árferði.

Volkswagen lokaði verksmiðjum sínum í Evrópu í síðustu viku en framleiðsla utan Kína hefur nær stöðvast undanfarnar vikur.

Evrópski seðlabankinn hefur sem kunnugt er tilkynnt um áform sín um að auka skuldabréfakaup sín á markaði um allt að 750 milljarða evra til þess að milda efnahagsáhrif kórónafaraldursins. Bankinn mun þannig kaupa skuldabréf fyrir þúsund milljarða evra á næstu mánuðum sem eru umfangsmestu skuldabréfakaup í sögu bankans.

Þýski bílaframleiðandinn hefur heimild til þess að gefa út skuldabréf fyrir allt að fimmtán milljarða evra samkvæmt útgáfuramma sínum en þó getur hann jafnframt gefið út styttri bréf fyrir fimm milljarða evra á belgískum skuldabréfamarkaði, að sögn Financial Times.

Volkswagen hefur þegar lækkað starfshlutfall tugþúsunda starfsmana sinna í Þýskalandi á síðustu dögum en alls starfa nærri fimm hundruð þúsund manns hjá framleiðandanum í Evrópu.