Bílaframleiðandinn Volkswagen er byrjaður að loka verksmiðjum víðsvegar um Evrópu til að fara eftir tilmælum stjórnvalda um samkomubann vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Þýski bílaframleiðandinn mun loka verksmiðjum sínum í Portúgal, Slóvakíu og á Spáni í vikunni.

Búist er við því að stærsta verksmiðja fyrirtækisins í Þýskalandi loki á næstu dögum að sögn Herbert Diess, framkvæmdarstjóra Volkswagen.

Volkswagen framleiddi tæplega ellefu milljónir bíla á síðasta ári en ekkert annað fyrirtæki framleiddi jafn marga bíla.

Innan Volkswagen samsteypunnar eru bílar frá Volkswagen, Audi, Skoda, Porsche, Lamborghini, Bugatti og SEAT.