Vogunarsjóðir sem veðja á gengisflökt hefur vegnað illa frá því að COVID-19 olli miklum efnahagsvanda á Vesturlöndum. Slíkir sjóðir, sem kaupa og selja afleiður til að hagnast á sveiflum í verði hlutabréfa, skuldabréfa og gjaldmiðla, töpuðu 2,4 prósentum frá ársbyrjun til júlí. Til samanburðar töpuðu vogunarsjóðir að meðaltali 0,3 prósentum og S&P hlutabréfavísitalan hækkaði um 2,4 prósent.

Financial Times segir að margir sjóðir hafi brennt sig á því að skortselja gengisflökt. Með því er veðjað á að flöktið yrði minna en áður eða það haldi áfram að vera lítið.

Vix vísitalan sem fangar gengisflökt hækkaði í 82,7 stig um miðjan mars sem er hærra en í fjármálakrísunni 2008. Hækkunina má rekja til þess að fjárfestar óttuðust efnahagslegar afleiðingar COVID-19. Jafnvel í sumar, þegar hlutabréfamarkaðir hækkuðu, var vísitalan hærri en langtímameðaltal hennar.

Tindaro Siragusano, forstjóri 7orca Asset Management, lýsir ávöxtuninni af því að skortselja gengisflökt með myndrænum hætti. Hún sé eins og að ganga upp tröppur í húsi en taka lyftuna niður. Ávöxtunin komi hægt og rólega en svo geti tapið komið með miklum skelli.

Það hefur þó ekki öllum sjóðum sem veðja á gengisflökt vegnað illa. Ávöxtun Gammon var 600 prósent í ár og Quantumrock græddi 37 prósent.