Mikill munur var á ávöxtun íslenskra vogunarsjóða, sem hafa sumir hverjir fjárfestingarheimildir til að gíra skort- eða gnóttstöður sínar í skuldabréfum eða hlutabréfum fimmfalt, á árinu 2020 en tveir sjóðir í rekstri Akta sköruðu fram úr og skiluðu sjóðfélögum sínum yfir 90 prósenta ávöxtun, samkvæmt samantekt Markaðarins. Góðan árangur sjóðanna – Akta HS1 og Akta HL1 – má ekki síst þakka veðmáli þeirra á hlutafjárútboð Icelandair Group, þar sem sjóðirnir tóku drjúga stöðu, en hlutabréfaverð flugfélagsins hækkaði um liðlega 70 prósent á síðustu tveimur mánuðum ársins.

Sjóðurinn ÍS-5, sem er í rekstri Stefnis og fjárfestir í hlutabréfum, og Fixed Income Opportunity Fund (FIOF), skuldabréfasjóður í stýringu hjá Landsbréfum, skiluðu hins vegar lökustu afkomunni á síðasta ári í samanburði við aðra vogunarsjóði og var ávöxtun þeirra 7,7 prósent og 5 prósent.

Samkvæmt upplýsingablaði Akta HS1 til sjóðfélaga, sem Markaðurinn hefur undir höndum, nam ávöxtun sjóðsins 93,7 prósentum á liðnu ári, en hann fjárfestir bæði í íslenskum hlutabréfum og skuldabréfum. Ávöxtun Akta HL1 var litlu minni, eða um 90,2 prósent, en sá sjóður fjárfestir einungis í hlutabréfum. Sjóðirnir, sem voru annars vegar 4,4 milljarðar króna og hins vegar 3,7 milljarðar króna að stærð í árslok 2020, hafa ekki skilað hærri ávöxtun frá stofnun árið 2013 – á árinu 2015 skiluðu sjóðirnir 88 prósenta og 71 prósents ávöxtun – en þeim er stýrt af Erni Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Akta, og Fannari Jónssyni sjóðsstjóra.

Til samanburðar hækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um liðlega 21 prósent á síðasta ári á meðan hækkun aðalvísitölu skuldabréfa nam um 6 prósentum.

Vogunarsjóðir, sem standa einungis fagfjárfestum til boða vegna þess hversu áhættusöm fjárfesting í slíkum sjóðum getur verið, hafa mun ríkari heimildir en hefðbundnir verðbréfasjóðir til lántöku – stundum nefnd gírun – og nýta sér afleiður, meðal annars valréttarsamninga og framvirka samninga, til að skortselja ákveðna hlutabréfa- eða skuldabréfaflokka, sem og að taka gíraða gnóttstöðu. Sjóðirnir miða árangur sinn við tilteknar vísitölur á markaði og yfirleitt nemur þóknun þeirra sem stýra þeim 20 prósentum umfram það viðmið.

Auk þess að hafa hagnast mikið á fjárfestingu í Icelandair höfðu vogunarsjóðir Akta, sem eru að sögn kunnugra sagðir kvikari en aðrir sambærilegir sjóðir í að kaupa og selja sig út úr þeim félögum sem þeir fjárfesta í, byggt upp drjúga stöðu í Kviku banka og TM þegar hlutabréfaverð félaganna tók að hækka mikið eftir að tilkynnt var um samruna þeirra í lok september. Þá tímasettu sjóðir Akta vel kaup í fasteignafélögum síðla árs, en gengi þeirra hækkaði mikið – hlutabréfaverð Regins og Reita rauk upp um liðlega 40 og 60 prósent í nóvember og desember – þegar jákvæðar fregnir af bóluefni juku mjög bjartsýni fjárfesta á hlutabréfamarkaði.

Samkvæmt samantekt Markaðarins skilaði fagfjárfestasjóðurinn Algildi, sem var stofnaður árið 2019 og er stýrt af Jóhanni Gísla Jóhannessyni, þriðju hæstu afkomunni á árinu 2020, en ávöxtun sjóðsins nam tæplega 43 prósentum. Sjóðurinn fjárfestir í bæði skráðum, innlendum hlutabréfum og skuldabréfum og nemur stærð hans um 1.500 milljónum króna.

Þar á eftir komu sjóðirnir Alpha hlutabréf hjá Íslandssjóðum, Hekla fagfjárfestasjóður, blandaður sjóður sem er í rekstri Landsbréfa, og Iceland Fixed Income Fund (IFIF), vogunarsjóður hjá Kviku eigna­stýringu sem fjárfestir í íslenskum skuldabréfum. Ávöxtun þessara sjóða nam á bilinu 31 til 37 prósentum á árinu 2020.

Fram kemur í upplýsingablaði sem var sent til sjóðfélaga IFIF á síðasta viðskiptadegi ársins 2020, sem Markaðurinn hefur undir höndum, að sjóðurinn hafi skilað um 31 prósents ávöxtun á árinu en stærð sjóðsins stóð þá í 18,1 milljarði króna. Ávöxtun sjóðsins, sem var komið á fót árið 2009 og er stýrt af Agnari Tómasi Möller, var sú næstbesta frá stofnun, en til samanburðar hækkaði ríkisskuldabréfavísitala Kviku eigna­stýringar um 6,6 prósent á síðasta ári.

Hugmyndafræði sjóðsins, að því er segir í upplýsingablaðinu, gengur út á að „finna og nýta tækifæri á íslenskum vaxtamarkaði, sérstaklega þar sem óraunsær munur hefur myndast á milli verðlagningar og undirliggjandi forsenda, einkum vegna tímabundinnar óskilvirkni á markaði og/eða mikils aðskilnaðar í verðmyndun á milli mismunandi eignaflokka.“

Í fjárfestabréfi IFIF til sjóðfélaga um síðustu áramót, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að ef alþjóðaþróun verði ekki með þeim hætti að verðbólga fari úr böndunum á næstu árum og seðlabankar heimsins grípi fyrr til vaxtahækkana en nú er verðlagt á mörkuðum, sé ekki óvarlagt að reikna með vöxtum Seðlabankans – þeir eru nú 0,5 prósent – í nágrenni við sömu gildi næstu tvö árin.

„Mikill og sögulega hár langtíma raunvaxtamunur, verðlagning um hratt hækkandi vexti Seðlabanka Íslands, verðbólguálag til skemmri og lengri tíma við markmið og nokkuð minni útgáfa ríkissjóðs en gera hefði mátt ráð fyrir, gefur ástæðu til sæmilegrar bjartsýni um góða ávöxtun skulda á komandi ári,“ segir í fjárfestabréfinu.