Tilnefningarnefndir eru í tísku. Á skömmum tíma hefur þeim skráðu félögum í Kauphöllinni sem skipa tilnefningarnefnd fjölgað ört og nú hefur meirihluti félaganna komið slíkri nefnd á fót eða hafið undirbúning að því. Þá er rétt að staldra við og spyrja hvort nefndirnar þjóni tilgangi sínum.

Tilnefningarnefndir eiga að gæta þess að einstaklingar sem tilnefndir eru búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til þess að rækja hlutverk sitt. Þannig eigi að stuðla að fjölbreytni í stjórninni. Hins vegar gildir það sama um tilnefningarnefndir og svo margt annað, að góð yfirskrift er ekki endilega ávísun á góða útkomu.

Smásölurisinn Hagar tilkynnti um frambjóðendur til stjórnar í síðustu viku og jafnframt voru kynntar tillögur tilnefningarnefndar. Nefndin ákvað að sniðganga athafnamanninn sem stofnaði fyrirtækið og byggði alþjóðlegt smásöluveldi á grunni þess en í rökstuðningi nefndarinnar var það eitt látið duga að útlista feril­skrár hinna tilnefndu. Þá kom fram að einungis hefði verið leitað til sex stærstu hluthafa fyrirtækisins.

Ekki verður séð hvernig þessar aðferðir nefndarinnar taka mið af heildarhagsmunum hluthafa. Vanræksla á útfærslu og framkvæmd tilnefningarnefnda getur leitt til þess að stjórnarhættir fyrirtækis verði verri fyrir vikið.

Það liggur raunar ekki í augum uppi hvaða vanda tilnefningarnefndum er ætlað að leysa og þær virðast í fljótu bragði vera krókaleiðir í ákvörðunartöku. Í leiðbeiningum um tilnefningarnefndir segir að meirihluti þeirra skuli vera óháður félaginu. Hluthafar skipa nefndina sem ráðfærir sig við stærstu hluthafana, framkvæmir mat á frambjóðendum og leggur fram tillögur sem hún telur taka mið af heildarhagsmunum hluthafa. Krafan um tilnefningarnefndir felur þannig í sér að hluthafar eigi að reiða sig á mat nefndarmanna sem eiga kannski ekkert undir gengi fyrirtækisins.

Leiða má líkur að því að lífeyrissjóðirnir muni fara eftir tillögum tilnefningarnefnda í samræmi við markmiðið um góða stjórnarhætti. Ef tilnefningarnefndir verða áhrifamiklar í stjórnarkjörum íslenskra fyrirtækja er vandséð hvernig eins konar framsal á ákvörðun frá haghafa til þriðja aðila sé betra fyrirkomulag fyrir ákvörðunartöku heldur en það þegar haghafar velja stjórnarmenn eftir eigin viðmiðum og hyggjuviti. Hlutabréfamarkaðurinn hefur nú þegar verið gagnrýndur fyrir þann fjölda stjórnarmanna sem á ekki stakan hlut í viðkomandi fyrirtæki.

Oft ber að varast það þegar hugmyndir ná skjótri útbreiðslu án merkjanlegrar mótstöðu. Hvað tilnefningarnefndir varðar er hætt á því að þær verði notaðar til þess eins að fyrirtæki geti hakað í boxið á lista góðra stjórnarhátta.