Jón von Tetzchner, forstjóri og stofnandi Vivaldi-vafrans, segir að það hafi verið stórt og ánægjulegt skref að vafrinn sé kominn í Polestar 2 bílanna og að fyrirtækið vinni núna með fleiri bílaframleiðendum í kjölfarið.

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 í kvöld, en Jón von Tetzchner er gestur Jóns. Viðtalið við hann er tekið með fjarfundatækni en Jón er búsettur fyrir norðan Boston í Bandaríkjunum.

„Þetta var mjög stórt skref fyrir okkur og ánægjulegt í alla staði. Það hefur vakið verulega athygli á vafranum okkar.. Það er ekkert venjulegt að vafrar séu í bílum; hafa verið í Teslunni. En það er mikill áhugi á þessu og vafrinn okkar virkar mjög vel í Polestar 2,“ segir Jón.

„Forstjóri Polestar vildi fá vafrann inn sem jólagjöf til eigenda Polestar 2 bílanna og 23. desember var vafrinn sendur út til þeirra. Eftir þetta tóku aðrir bílaframleiðendur við sér og sögðu sem svo; Já, þeir eru komnir með vafra en við ekki - þannig að það eru fleiri bílaframleiðendur að fara í þessa átt með okkur. En Polestar voru fyrstir með Vivaldi.“

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.