Vivaldi vafrinn, sem Jón von Tetzchner stendur að baki og er meðal annars með skrifstofu hér á landi, hefur hafið samstarf við sænska bílaframleiðandann Polestar. Hugmyndin er að bjóða ökumönnum upp á kraftmikla vafraupplifun í rafmagnsbílnum Polestar 2. Vivaldi er fyrsti vafrinn sem er í boði á Android Automotive OS. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við erum mjög stolt af því að kynna vafrann okkar fyrir bílum í fyrsta sinn og sérstaklega í samvinnu við bílategund eins og Polestar. Við deilum sömu sýn á tækni og sjálfbærni. Við metum gagnsæi, friðhelgi og ábyrga nýsköpun – Hér má líka nefna þá staðreynd að við erum með netþjónana okkar á Íslandi, sem er einmitt eitt af nýjustu markaðssvæðum Polestar. Við setjum markið hátt í samkeppninni á vaframarkaði og tökum Skandinavíska nálgun á hönnun, en hún byggir á trausti og því að hlusta á notendur okkar,” segir Jón Stephenson von Tetzchner, forstjóri Vivaldi.

Vivaldi fyrir Polestar er fullhlaðinn vafri sem passar fullkomlega á 13 tommu skjáinn með Android Automotive OS í Polestar. Bílavafrinn er með öllum sömu eiginleikum og í öðrum tækjum, hann er troðfullur af eiginleikum, s.s. flipavafri, möguleika á að streyma og versla á netinu. Hann er að sjálfsögðu með innbyggða auglýsinga- og rekjaravörn, þýðingum, minnismiðum og samstillingu með dulkóðun.