Innkoma flugfélagsins Play þýðir að Icelandair þarf að leggja ofuráherslu á að draga úr kostnaði. Erfitt verður fyrir Icelandair að ná markmiðum um hækkun fargjalda þegar nýtt flugfélag selur ódýrari flugmiða til sömu áfangastaða. Þetta segir Egill Almar Ágústsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og ráðgjafi hjá Boston Consulting Group.

„Lágfargjaldalíkanið, þar sem flugfélög notast við minni flugvélar (e. narrow-body) og bjóða upp á styttri ferðir, hefur margsannað sig. Flug yfir Atlantshafið er að sumu leyti frábrugðið því módeli en stjórnendur Play vita nákvæmlega hvar það virkaði og virkaði ekki hjá WOW air,“ segir Egill.

Aftur á móti eru markaðsaðstæður frábrugðnar því sem var fyrir COVID og erfitt er að spá fyrir um hvernig framboð og eftirspurn þróast á næstu misserum. „En það mun skipta miklu máli að geta selt flug ódýrt vegna þess að mörg félög munu keppa um sömu kúnnana. Play mun geta gert það,“ bætir hann við.

Play, sem hefur um langt skeið unnið að því að koma á fót flugfélagi hér á landi, hefur tryggt sér nýtt hlutafé frá breiðum hópi innlendra fjárfesta, meðal annars lífeyrissjóðum, að fjárhæð meira en fimm milljarðar króna.

„Icelandair þarf einfaldlega að leggja ofuráherslu á að lækka einingakostnaðinn.“

Í hópi þeirra fjárfesta sem leggja hinu verðandi flugfélagi til nýtt fjármagn eru Stoðir, eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins, eigendur Langasjós, sem á heildverslunina Mata og fjárfestingafélagið Brimgarða, félagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson fjárfestir fer fyrir, tryggingafélagið VÍS, lífeyrissjóðirnir Birta og Lífsverk ásamt verðbréfasjóðum í stýringu Akta.

„Já og nei,“ segir Egill, spurður hvort innkoma Play séu slæmar fréttir fyrir Icelandair. „Það verður vissulega erfitt fyrir Icelandair að ná markmiðum sínum um hækkun á fargjöldum. Þegar nýtt flugfélag kemur inn á markaðinn og selur ódýrari flugmiða á sömu áfangastaði er erfitt að hækka fargjöld.“

Egill bendir hins vegar á að vandamál Icelandair snúist um kostnað frekar en tekjur.

„Á síðustu árum fyrir COVID fór félagið úr því að hagnast vel í mikið tap aðallega út af því að kostnaður hækkaði á meðan tekjur voru tiltölulega flatar. Samkeppni hefur áhrif á tekjur, en ekki mikil áhrif á kostnað og því má segja að vandamálið hafi aðallega komið innan úr félaginu en ekki vegna samkeppninnar.“

Þetta gefur til kynna, að sögn Egils, að Icelandair hefði getað verið arðbært þrátt fyrir mikla samkeppni frá WOW ef einingakostnaðurinn hefði ekki hækkað eins og raun bar vitni.

Stækka markaðinn eins og WOW

Play hefur nú þegar tryggt sér þrjár Airbus A321-leiguflugvélar til þess að hefja áætlunarflug á vinsæla áfangastaði íslenskra ferðamanna. Á tengimarkaðinum yfir Norður-Atlantshafið er nægt pláss fyrir bæði félög að mati Egils þar sem Ísland er hvort eð er með mjög litla markaðshlutdeild.

„Til og frá Íslandi, eins og innkoma WOW air sýndi, er líklegt að Play stækki markaðinn. WOW air fjölgaði ferðamönnum til Íslands með því að höfða til markhóps sem Icelandair náði ekki eins til. Við munum væntanlega sjá sömu áhrif með innkomu Play,“ segir Egill.

„Samt sem áður,“ bætir hann við, „þarf Icelandair einfaldlega að leggja ofuráherslu á að lækka einingakostnaðinn. Þegar samkeppnisaðili kemur inn á markað og selur svipaða vöru á mun lægra verði, þá verða viðbrögðin að vera að lækka kostnað til að geta keppt á verðum. Dæmin í flugsögunni um flugfélög sem hafa náð að lifa með beinni samkeppni frá lágfargjaldaflugfélagi eru flest þannig.“

Skýr samanburður í vændum

Þá er stefnt að skráningu félagsins á First North-markaðinn í Kauphöllinni, sem er áformað að verði í næstkomandi júnímánuði, en samhliða því hyggst Play sækja sér um 20 milljónir dala í aukið fjármagn til viðbótar því sem það hefur nú þegar tryggt sér. Egill segir að skráningin geti leitt áhugaverðan samanburð í ljós.

Egill Almar Ágústsson.jpg

„Ef Play skráir sig á First North-markaðinn, þá verða þeir að gefa upp sinn einingakostnað. Þá verður erfiðara fyrir Icelandair að sannfæra markaðinn um að hærri einingakostnaður þess félags sé vegna þess að það sé dýrt að reka flugfélag á Íslandi, því Play verður líka flugfélag á Íslandi,“ segir Egill. Þar sem WOW air var óskráð félag var slíkur samanburður ekki fyrir hendi.

Hliðstæða í Noregi

Nýtt norskt flugfélag, Flyr, var skráð á hlutabréfamarkað í Osló í byrjun mars. Með skráningunni náði Flyr að safna 70 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 9 milljörðum íslenskra króna. Nýja flugfélagið, sem var stofnað af reynslumiklum stjórnendum úr norska fluggeiranum, áformar að kaupa eða leigja átta þotur og fjölga þeim upp í 28 á næstu þremur eða fjórum árum. Hyggst félagið grípa tækifærin sem fjárhagsörðugleikar Norwegian Air hafa skapað. Fyrsta áætlunarflug Flyr verður í byrjun júní.