„Þetta eru þær tölur sem skipta meira máli þegar við erum að meta ávinning samfélagsins af ferðaþjónustunni. Í efnahagslegu tilliti eru þetta mjög jákvæðar fréttir gagnvart þeirri fækkun og þeim efnahagslegu áhrifum sem koma af fækkun ferðamanna,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við Fréttablaðið.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að kortavelta ferðamanna hér á landi hefði meiri í júní en á sama tíma í fyrra. Á sama tíma fækkaði farþegum sem fara í gegnum Keflavíkurflugvöll um fjórðung frá því í fyrra. Sérfræðingur í greiningardeild Arion banka sagði tölurnar sýna að hver ferðamaður hafi eytt tæplega 9 prósentum meira í eigin mynt og 23 prósentum meira af krónum í ferð sinni hér á landi í júní en á sama tíma í fyrra.

Jóhannes Þór segir tölurnar merki um að breytingar séu að verða á hegðun ferðamanna og hópunum sem hingað koma.

„Nokkrar ástæður geta legið þarna að baki. Það getur verið að hópar, sem hafa eytt litlu á ferðum sínum hérna, séu hættir að koma og þannig hækkar meðaltalið. En þetta bendir einnig til þess að hver ferðamaður sé farinn að eyða meiru í sinni heimamynt og það er sá mælikvarði sem stýrir útgjöldum ferðamannsins,“ segir Jóhannes Þór.

„Þetta er í raun mjög ánægjuleg þróun vegna þess að hún er að fara í þá átt sem stjórnvöld og atvinnugreinin vilja sjá. Það er ekkert sérstakt markmið í sjálfu sér að moka hér inn sem mestum fjölda ferðamanna. Það sem skiptir mestu máli eru verðmætin sem þau skilja eftir sig fyrir gæðin og þjónustu sem þeir fá. Þar þarf hljóð og mynd að fara saman. Og eftir því sem gæðin og þjónustan eru meiri því líklegra er að þeir skilji meira eftir sig. Við vonum að þróunin haldi áfram í þessa átt hver sem fjöldi ferðamanna verður.“

Þá segir Jóhannes Þór að áhugavert væri að fá nánari greiningu á tölunum. Þá væri hægt að sjá hvernig áhrifin skiptast eftir mismunandi markaðshópum og markaðssvæðum. „Þetta myndi líka hjálpa okkur að sjá hvaða áhrif þetta er að hafa á fyrirtæki eftir greinum, eftir landsvæðum og svo framvegis.“