Tryggingafélagið VÍS hefur ákveðið að stytta vinnuviku starfsmanna sinna fyrr en síðustu kjarasamningar kveða á um. Unnið verður 45 mínútum skemur á föstudögum.

„Það gleður mig að segja frá því að við höfum ákveðið að ríða á vaðið með styttingu vinnuvikunnar í samræmi við síðustu kjarasamninga. Samkvæmt þeim á styttingin að taka gildi 1. janúar 2020 en við höfum ákveðið að hún taki gildi strax um næstu mánaðarmót, 1. nóvember,“ er haft eftir Helga Bjarnasyni, forstjóra VÍS í tilkynningu frá félaginu.

„Við munum stytta vinnuvikuna um 45 mínútur á föstudögum og teljum, eftir samráð við starfsfólk, að mesti ávinningurinn náist með þeirri útfærslu. Við erum sannfærð um að þetta stuðli að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og um leið geri vinnustaðinn okkar enn fjölskylduvænni.“

VÍS tapaði 394 milljónum króna á þriðja fjórðungi ársins samanborið við 910 milljónir á sama fjórðungi í fyrra. Sé horft yfir fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.798 milljónum króna samanborið við 1.462 milljón króna hagnað á sama tímabili árið 2018.