Vátryggingafélag Íslands seldi fyrr í vikunni 1,2 prósenta hlut í Heimavöllum þegar norska leigufélagið Fredensborg festi kaup á ríflega tíu prósenta hlut í íslenska leigufélaginu. Hlutur Arion banka í félaginu minnkaði um 1,1 prósentustig og þá seldi Efniviður, félag á vegum Magnúsar Einarssonar fasteignasala, tæplega 0,4 prósenta hlut.

Eins og kunnugt er keypti Fredensborg, sem á um fjörutíu þúsund íbúðir á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Hollandi, 10,2 prósenta hlut í Heimavöllum á mánudag. Er markaðsvirði hlutarins tæplega einn og hálfur milljarður króna.

Fram kom í flöggunartilkynningu sama dag að Klasi, sem er að stærstum hluta í eigu viðskiptafélaganna Finns Reyrs Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar, hefði selt norska félaginu 3,9 prósenta hlut sinn í Heimavöllum. Nam salan um 520 milljónum króna en í kjölfar hennar fóru Klasi og tengd félög, það er Sigla, Gani og Snæból, með samanlagt 17,5 prósenta hlut í Heimavöllum, að því er sagði í flögguninni.

Samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa Heimavöllum, dagsettum 20. janúar, hefur Sigla jafnframt minnkað við sig í leigufélaginu en félagið er ekki lengur að finna í hópi tuttugu stærstu hluthafanna. Áður fór Sigla með liðlega 2,6 prósenta hlut í Heimavöllum. Eignarhlutir Gana og Snæbóls eru óbreyttir.

Af listanum má jafnframt ráða að VÍS hafi selt um 1,2 prósenta hlut í Heimavöllum og fer tryggingafélagið nú með 2,7 prósenta hlut í leigufélaginu að virði hátt í 400 milljóna króna. Þá hefur eignarhlutur Arion banka minnkað úr 6,6 prósentum í 5,5 prósent en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða fjárfestar standa á bak við hlutinn. Hlutur Efniviðar hefur jafnframt minnkað úr 2 prósentum í 1,6 prósent.

Hlutabréf í Heimavöllum hafa hækkað um nærri tólf prósent í verði í vikunni og stendur gengi bréfanna nú í 1,31 krónu á hlut.