Tryggingafélagið VÍS og Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood og einn af stærstu hluthöfum VÍS, hafa fjárfest í eignastýringarfyrirtækinu Vex ehf. sem var stofnað fyrr á þessu ári.

Frá þesu er greint í fjárfestakynningu VÍS í morgun en félagið skilaði uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða í gær.

Áhersla Vex verður á sérhæfðar fjárfestingar og er það skráð sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Auk Bjarna og VÍS eru hluthafar félagsins þeir Benedikt Ólafsson, fyrrverandi fjármálastjóri Skeljungs og forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga Stefnis, og Trausti Jónsson, sem hætti nýlega störfum sem sjóðstjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni.

Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna, er í dag fimmti stærsti hluthafi VÍS með liðlega 6,9 prósenta hlut og hefur að undanförnu verið að bæta nokkuð eignarhlut sinn í tryggingafélaginu. Bjarni kom fyrst inn í hluthafahóp VÍS í janúar á þessu ári.

Fjárfestingaeignir VÍS námu um 39 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs, en af þeim eignum eru ríkisskuldabréf um 27 prósent. Fram kemur í fjárfestakynningu félagsins að lágvaxtaumhverfi kalli á áherslubreytingar. Horft verði meira til erlendra skuldabréfa, skráðra hlutabréfa, sérhæfðra fjárfestinga og innlendra fyrirtækjaskuldabréfa og útlána.

Hlutabréfaverð VÍS hefur hækkað um 13 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði félagsins í dag um 23 milljörðum króna.