VÍS lokar samanlagt átta skrifstofum í kjölfar endurskipulagningar fyrirtækisins þar sem aukin áherslu verður lögð á á einfaldara fyrirkomulag þjónustu og stafrænar lausnir. Tilkynnt var um skipulagsbreytingarnar í gær.

Af þeim átta skrifstofum sem verður lokað verða sex sameinaðar öðrum, en tveimur alveg lokað. Samkvæmt upplýsingum frá VÍS hefur þremur starfsmönnum verið sagt upp í kjölfar skipulagsbreytinganna auk þess sem þrettán verktakasamningum var sagt upp. 

Breytingarnar taka gildi 1. október næstkomandi og verða sameinaðar þjónustuskrifstofur staðsettar á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík. 

Loka á Höfn og í Vestmannaeyjum

Skrifstofa á Húsavík sameinast skrifstofu á Akureyri. Skrifstofur á Akranesi, Borgarnesi og Keflavík sameinast skrifstofu í Reykjavík. Skrifstofa á Reyðarfirði sameinast Egilsstöðum og sameinast skrifstofa á Hvolsvelli skrifstofu á Selfossi. 

Samkvæmt upplýsingum frá VÍS var starfsfólki á þeim skrifstofum sem sameinast öðrum boðin ný staða á nýrri sameinaðri skrifstofu og var fólki í einhverjum tilfellum boðið að vinna sína vinnu í fjarvinnu. Engum var því sagt upp á þeim skrifstofum. 

Loka á tveimur skrifstofum á Höfn og í Vestmannaeyjum þar sem samanlagt tveimur starfsmönnum var sagt upp. Skipulagsbreytingin felst einnig í því að hætt verður að skipta landinu í mörg umdæmi og verður nú litið á allt landið sem eitt umdæmi og eitt þjónustusvæði.

Samhliða þeirri breytingu hætta umdæmisstjórar um allt land. Þeir voru í heildina þrír og fara tveir í önnur störf og einn hættir. 

Segja upp þrettán verktakasamningum

Auk skrifstofanna sem er verið að sameina eða loka var VÍS með samninga með verktaka víða um land, svokallaða umboðsmenn. Þeir voru, eins og fyrr segir, þrettán í heildina og hefur þeim öllum verið sagt upp. 

Verktakarnir voru staðsettir í Snæfellsbæ, Vopnafirði, Hvammstanga, Grundarfirði, Hellu, Fjallabyggð, Stykkishólmi, Patreksfirði, Hólmavík, Bolungarvík, Tálknafirði, Seyðisfirði og Borgarfirði Eystri. 

Verktakarnir sinntu umboðsstarfi fyrir VÍS víðs vegar um landið og sáu, til dæmis, um að útvega viðskiptavinum tilboð í tryggingar eða hittu viðskiptavini og fóru yfir endurnýjun trygginga. 

Þjónusta fari fram á neti eða í síma

Segir í tilkynningu frá VÍS að samskipti við viðskiptavini fari í síauknum mæli fram í gegnum net og síma og samkvæmt þjónustukönnunum hafi viðskiptavinir kallað eftir aukinni þjónustu á þeim vettvangi. Áherslu- og skipulagsbreytingin eigi því að svara því kalli viðskiptavina VÍS. 

„Við mótuðum nýlega skýra framtíðarsýn um að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar sem við gerum núna eru í takt við þá sýn og er ætlað samræma þjónustuna okkar og laga hana enn betur að þörfum viðskiptavina sem vilja einföld, flækjulaus og skilvirk tryggingaviðskipti. Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn fari vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður efla þjónustuna okkar á því sviði“ sagði Helgi Bjarnason forstjóri VÍS í tilkynningu. 

Tilkynningu VÍS má lesa hér í heild sinni.