Samrunar og yfirtökur á heimsvísu námu 2,5 trilljónum dollara á fyrri helmingi ársins sem er met. Metið var slegið þrátt fyrir að vegið hafi verið að alþjóðlegum viðskiptum að undanförnu. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Fjöldi risasamruna í Bandaríkjunum á sviði fjölmiðla og fjarskipta lögðu sitt á vogarskálarnar að umsvifin jukust um 65 prósent á milli ára. Fjárhæðin er sú hæsta að nafnvirði síðan Thomson Reuters hóf að safna gögnum um samruna og yfirtökur á níunda áratugnum. 

Þessi aukning á sér stað á sama tíma og tollastríð er yfirvofandi á milli Bandaríkjanna og Kína og aukinn pólitískur óstöðugleiki er á Evrusvæðinu, einkum á Ítalíu og Spáni, sem fer öfugt ofan í fjármálamarkaði.

Blair Effron, stofnandi fjárfestingabankans Centerview Partners, segir tækniframfarir sem umbylta mörkuðum séu mikill hvati fyrir fyrirtæki til að sameinast. Við það bætist að hlýir vindar blási um efnahagslífið og fjármálaumhverfið sé hagstætt sem leiði til þess að það komi ekki á óvart að mikið sé um að vera í samrunum og yfirtökum um þessar mundir.

Dæmi um það sem kann að umbylta mörkuðum er að Amazon upplýsti í gær um fyrirhuguð kaup á netapóteki. Kaupin leiddu til þess að hlutabréfaverð Walgreens Boots Alliance, sem rekur meðal annars apótek í Bandaríkjunum og Bretlandi, lækkaði um tæplega tíu prósent og CVS Health Corp, sem rekstur stærstu keðju apóteka í Bandríkjunum, um rúmlega sex prósent.

Fyrirtæki sem starfa á heilbrigðismarkaði höfðu vænst einhverju þessu líku í nokkurn tíma. Af þeim sökum keypti CVS tryggingarfélag á sviði heilsu, Aetna, og keppinautur þess síðarnefnda, Cigna, keypti Express Scripts.

Walt Disney og Comcast keppast nú um að kaupa 21st Century Fox. Kapphlaupið með rekja til að fyrirtækin þurfa að stækka til að geta keppt við Amazon, Netflix, Google og fleiri tæknirisa.