Eftir nær samfellda hækkun frá miðju ári 2016 hefur gengi hlutabréfa í Apple lækkað um ríflega þriðjung frá því síðasta haust. Markaðsvirði bandaríska tæknirisans hefur því rýrnað um jafnvirði 50 þúsund milljarða króna en til samanburðar er talið að landsframleiðsla Íslands verði um 3 þúsund milljarðar króna í ár.

Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka þar sem fjallað er um verðfall hlutabréfa í Apple undanfarna mánuði. 

Eins og kunnugt er féllu bréfin um tíu prósent í verði í gær eftir að félagið lækkaði tekjuspá sína fyrir síðasta ár. Ástæðan er einkum lakari sala í Kína en vonir höfðu staðið til.

Sérfræðingar Íslandsbanka benda á að tekjur af sölu iPhone-snjallsímans, sem þeir segja arðbærustu neytendavöru sögunnar, hafi aukist um 18 prósent á milli ára á meðan eilítill samdráttur hafi verið í sölutekjum vegna spjald-, borð og fartölva. 

Þrátt fyrir auknar tekjur af símasölu seldust hins vegar einungis hálfu prósenti fleiri eintök á árinu, að sögn Íslandsbanka, en munurinn liggur í töluverðum verðhækkunum félagsins á milli ára.

Í morgunkorni bankans kemur jafnframt fram að Apple sé nú fjórða verðmætasta tæknifyrirtæki Bandaríkjanna á eftir Microsoft, Amazon og Google.

Undanfarna tólf mánuði hefur markaðsvirði Amazon aukist um tæpan fjórðung og Microsoft, verðmætasta fyrirtækisins, um 12 prósent, að því er segir í umfjöllun Íslandsbanka. Af helstu tæknifyrirtækjum Bandaríkjanna hefur mesta verðlækkunin verið á hlutabréfum í Facebook en þau hafa fallið um 29 prósent í verði á síðustu tólf mánuðum.

Sjá frétt Fréttablaðsins: Hlutabréf í Apple hríðféllu eftir sjaldgæfa afkomuviðvörun