Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að það hafi verið mikilvægt skref hjá Play að vera skráð í Kauphöllina, First North-markaðinn, sl. vor. Þetta kemur fram í þætti Jóns G. á Hringbraut í kvöld en Birgir er gestur Jóns ásamt Ingibjörgu Ástu Halldórsdóttur, markaðsstjóra Samkaupa.

Birgir segir að félagið hafi náð að fjármagna sig með skráningunni í Kauphöllina og sé fyrir vikið skuldlaust. Markaðsvirði félagsins er um 17 milljarðar króna en til samanburðar má geta þess að markaðsvirði Icelandair Group er um 60 milljarðar króna.

Fram kemur í þættinum að Play hafi flutt yfir 70 þúsund farþega frá því félagið fór í loftið sl. vor. „Við vorum með yfir 70% sætanýtingu í október og það stefnir í mjög góðan desember,“ segir Birgir.

Þáttur Jóns ber heitið Stjórnandinn með Jóni G. og er á dagskrá Hringbrautar kl. 19, 21 og 23 í kvöld og endursýndur á tveggja tíma fresti eftir það til morguns.