Arðgreiðslur Landsvirkjunar til eigenda sinna nema um 400 milljónum Bandaríkjadala frá árinu 2006. Þetta segir Gylfi Magnússon prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fyrrum viðskiptaráðherra.

Mjög skiptar skoðanir eru um hvort sveitarfélögin Reykjavík og Akureyri hafi samið af sér þegar samanlagður 50 prósenta hlutur þeirra var seldur árið 2006.

Gylfi Magnússon segir á facebook-síðu sinni að borgin hefði sem eigandi 46% hlutar fengið það hlutfall af þeim arðgreiðslum. „Til viðbótar má líka velta því fyrir sér hve mikils virði 46% hlutur í félagi sem greiðir 120 milljónir dala í arð á ári og er með eigið fé upp á 2,4 milljarða dala væri nú,“ segir Gylfi.

Hildur Björnsdóttir, oddvitaefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, telur að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kasti steinum úr glerhúsi þegar Dagur sagði í Fréttablaðinu í dag að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borginni hefði gert stærstu fjármálamistök sögunnar á sveitarstjórnarstigi með því að selja hlutina fyrir allt of lágt verð.

Þórður Gunnarsson, sem sækist eftir 4. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna i borginni í vor segir að lífeyrisskuldbindingar Reykjavíkurborgar sem greiddar voru með sölu á hlut í Landsvirkjun árið 2006 hefðu uppreiknað numið hátt í 90 milljörðum króna í dag. Því hafi það verið hárrétt ákvörðun að selja.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og fyrrum ráðherra, segir sérkennilegt að fullyrða að sala Reykjavíkurborgar á eignarhlut sínum í Landsvirkjun hafi verið góður díll án þess að gera neina tilraun til að meta virði hlutarins í dag.

„Það er rétt að lífeyrisskuldbindingar borgarinnar, sem ríkið greiddi fyrir hlutinn með yfirtöku á, hefðu hækkað mikið á tímabilinu. Það hefur hins vegar virði hlutabréfanna einnig gert,“ segir Þorsteinn.

Hann bendir á að með tilteknum mælikvarða megi meta markaðsvirði Landsvirkjunar á bilinu 460-1200 milljarðar króna.

„Virði tæplega 45% hlutar Reykjavíkur hefði þá legið í dag á bilinu 207-540 milljarðar króna. Á þennan mælikvarða hefði því skuldin vaxið um 63 milljarða en eignin um 180-500 milljarða króna. Kannski ekki svo góður díll eða hvað?,“ segir Þorsteinn á facebook.