Virði sænska fjártæknifyrirtækisins Klarna hefur aukist um helming á einungis þremur mánuðum eftir fjármögnun frá SoftBank. Fyrirtækið er nú metið á 45,5 milljarða Bandaríkjadali. Klarna er verðmætasta fjártæknifyrirtæki Evrópu sem ekki er skráð á hlutabréfamarkað. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Virði Klarna var 31 milljarður Bandaríkjadala í mars og ellefu milljarðar dala í september.

Klarna horfir til þess að vaxa verulega í Bandaríkjunum er stefnt á að þau umsvif verði margfalt meiri en núverandi umfang rekstrarins. Fjöldi greiðslna sem fóru um Klarna í Bandaríkjunum jukust um 296 prósent á fjórða ársfjórðungi á milli ára.

Vísisjóðurinn Vision Fund 2, sem stýrt er af hinu japanska Soft Bank, leiddi 638 milljónir dala fjármögnunarlotu hjá Klarna. Á meðal annarra hluthafa sænska fyrirtækisins eru H&M, Sequoia Capital og Silver Lake.

Horft er til þess að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað innan fárra ára. Skráning verður væntanlega í Bandaríkjunum en Bretland kemur einnig til greina.

Vision Fund 1 var að mestu fjármagnaður með fé frá Miðausturlöndum en Vision Fund 2 samanstendur einvörðungu af fé frá SoftBank.

Í síðasta mánuði sagði stofnandi SoftBank, Masayoshi Son, að hann myndi auka fjármögnun Vision Fund 2 úr tíu milljörðum dala í 30 milljarða dala samhliða því að fjárfest verði í ríkari mæli í sprotafyrirtækjum.

Klarna er skilgreint sem af sænska regluverkinu sem banki en horft er til þess að skapa „ofur-app“ sem viðskiptavinir nýta ekki einungis til að greiða fyrir vörur heldur einnig til að versla og fyrir hefðbundin bankaviðskipti.

Fyrirtækið byggir á því að fólk geti keypt vörur núna en greiði fyrir þær seinna. Af þeim sökum hefur það verið gagnrýnt meðal annars af stjórnmálamönnum fyrir að hvetja fólk til að kaupa vörur sem það hefur ekki efni á að kaupa, segir í frétt Financial Times.