Ja­cinda Ardern, for­sætis­ráð­herra Nýja-Sjá­lands, leggur til að at­vinnu­rek­endur í landinu í­hugi að stytta vinnu­vikuna í fjóra daga auk annarra val­kosta sem geti auð­veldað vinnandi fólki lífið í landinu og hjálpað til við að styrkja efna­haginn og ferða­mennsku í landinu eftir CO­VID-19 heims­far­aldurinn.

Guar­dian greinir frá en Ardern ræddi mögu­leikann á þessu í Face­book live mynd­bandi. Þar sagði hún að slíkir val­kostir, um styttri vinnu­viku og fleiri al­menna frí­daga geti verið leið til þess að styrkja efna­hag landsins og hvatt lands­menn til að ferðast innan lands á meðan landa­mæri landsins eru lokuð.

Í Nýja-Sjá­landi, líkt og hér á landi, hefur ferða­mennsku­iðnaðurinn orðið fyrir miklu höggi vegna heims­far­aldursins. Hafa margir lands­menn neyðst til að taka á sig launa­skerðingar í kjöl­farið í landinu.

„Það leggja margir nú til að við ættum að hafa fjögurra daga vinnu­viku. Að endingu er það á milli at­vinnu­rek­enda og starfs­manna. En eins og ég hef sagt er svo margt sem við höfum lært um CO­VID og sveigjan­leikann sem gefur fólki kost á að vinna að heiman og fram­leiðnina sem við getum fengið út úr því,“ sagði for­sætis­ráð­herrann.

„Ég vil hvetja fólk til að hugsa um þetta, ef þú ert at­vinnu­rekandi og í að­stöðu til þess. Að hugsa um það hvort það væri eitt­hvað sem gæti virkað fyrir þinn vinnu­stað því þetta gæti svo sannar­lega hjálpað ferða­manna­iðnaðinum um allt landið,“ segir Ardern.