Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur sett af stað hugmyndaherferð, fyrsta hugmyndin er að opna fyrir möguleika á daggæslu á stærri vinnustöðum í borginni.

„Ég vil opna umræðuna um daggæslumál á leikskólum í borginni. Við sjáum að biðlistarnir á leikskólana eru allt of langir og dagforeldrum fer sífellt fækkandi,“ segir Hildur.

„Annað hvort væri þetta dagforeldraúrræði, sem er auðveldara í framkvæmd. Eða ef fyrirtæki væru hreinlega tilbúin að reka leikskóla með fagfólki. Þetta þyrfti að vera að frumkvæði vinnustaðanna.“

Fé fylgi barni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt fyrirkomulag væri tekið í gagnið hér á landi. „Pálmi í Hagkaup opnaði daggæslu fyrir börn kvennanna á saumastofunni fyrir nokkrum áratugum síðan. En hann gafst upp á því á endanum því borgin neitaði að greiða mótframlag með börnunum. Þarna þyrfti borgin að koma inn og það talar inn í mína hugmyndafræði að fé fylgi barni í skólakerfinu. Borgin greiði þá sömu upphæð fyrir hvert úrræði en það sé foreldranna að velja hvert niðurgreiðslan fer.“

„Þetta gæti komið sér vel, bæði fyrir starfsmennina en líka fyrir vinnustaðinn. Þetta kemur sér vel fyrir foreldra sem festast margir hverjir lengur frá vinnu því þeir fá ekki daggæslu fyrir börnin sín. Ég hef líka verið að tala við atvinnurekendur sem eru mjög heitir í leikskólamálum vegna þess að þeir eiga erfitt með að fá starfsmenn aftur til vinnu úr fæðingarorlofi. Þetta gæti einfaldað lífið fyrir marga.“

Kynnir 30 hugmyndir

Hugmyndin er hluti af átaki Hildar, Geyma eða gleyma, sem hún hefur sett af stað á vef sínum hildurbjornsdottir.is. Hyggst hún kynna 30 hugmyndir á næstu dögum og fólk getur svo kosið hvaða hugmyndir Hildur á að geyma og hverjar hún eigi að gleyma.

Hildur hyggst bjóða sig fram á ný í borgarstjórnarkosningunum í vor, hún vill ekki tjá sig á þessum tímapunkti hvaða sæti hún sækist eftir. „Það er ekki búið að auglýsa prófkjör enn svo það er ótímabært að tjá sig um það á þessari stundu.“