Starfandi fólki fjölgaði um 11.800 milli ára í desember og atvinnulausum fækkaði um 4.700 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 74,6 prósent í desember og hækkaði um 3 prósentustig frá desember 2020.

Starfandi fólki fjölgaði um 11.800 milli ára.

Atvinnuþátttaka á uppleið

Atvinnuþátttaka jókst á síðasta ári og var 78,0 prósent í desember sem er einu prósentustigi meira en í desember í árið áður. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82 prósent. Samsvarandi tala nú er 78,8 prósent og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð stöðugt síðasta ár á þennan mælikvarða.

Atvinnuþátttaka er farin að aukast á ný.

Mismunandi mælingar á atvinnuleysi

Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 4,4 prósent í desember sem er 2,5 prósentustigum lægra en á sama tíma 2020. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 4,9 prósent og hafði minnkað um 5,8 prósentustig milli ára.

Atvinnuleysi minnkaði hratt á síðasta ári.

Sumar niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar sveiflast mikið eftir mánuðum. Þannig var atvinnuleysi í desember einu prósentustigi hærra en í nóvember. Hagstofan birtir einnig árstíðaleiðréttar tölur og samkvæmt þeim var atvinnuleysi í desember 4,6 prósent í stað þeirra 4,4 prósenta sem mæld voru í mánuðinum.

Atvinnuleysi álíka mikið 2020 og 2021

Meðalatvinnuleysi ársins 2021 var eilítið minna en 2020 samkvæmt mælingum bæði Hagstofu og Vinnumálastofnunar. Miklar breytingar urðu innan beggja ára með mikilli aukningu 2020 og mikilli minnkun 2021. Atvinnuleysið á þessum árum var eilítið minna en á árunum 2009 og 2010, en þessi fjögur ár eru með stærstu atvinnuleysisárum sögunnar.

Mikil árstíðabundin sveifla er í vinnustundum en meðal vinnustundum á ári fækkar jafnt og þétt.

Vinnutími styttist

Vinnutími hefur styst töluvert á undanförnum misserum. Venjulegur vikulegur vinnutími var þannig 0,4 stundum styttri nú í desember en í desember 2020. Sveiflur eru miklar í vinnutíma milli mánaða, en sé horft til 12 mánaða hlaupandi meðaltals er vinnutími nú rúmlega klukkustund styttri en hann var í upphafi ársins 2020. Áherslur í kjarasamningum um styttingu vinnutíma koma þannig greinilega í ljós í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar.

Árin 2020 og 2021 eru eins og svart og hvítt, auk þess sem miklar sveiflur urðu innan beggja ára á atvinnu pg vinnutíma. Berlega má sjá neikvæð áhrif vegna hertra sóttvarna á síðasta ársfjórðungi 2021.

Vinnuaflsnotkun eykst á ný

Starfandi fólki á 4. ársfjórðungi 2021 fjölgaði um 7,1 prósent miðað við sama tíma 2020. Vinnutími styttist um 0,5 prósent á sama tíma þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 6,6 prósent milli ára. Þetta er þriðji ársfjórðunginn í röð sem heildarvinnustundum fjölgar.

Miklar sveiflur hafa verið í vinnuaflsnotkun á tíma faraldursins og sker árið 2020 sig nokkuð úr hvað þróun vinnuaflsnotkunar varðar.

Hér sést vel hve vinnumarkaðurinn tók hressilega við sér á síðasta ári.

Sterkari vinnumarkaður

Tölur úr vinnumarkaðskönnuninni síðustu mánuði sýna að mati hagfræðinga Landsbankans ótvírætt að vinnumarkaðurinn sé óðum að ná fyrri styrk. Þrátt fyrir endurtekin skakkaföll í baráttunni við faraldurinn hafi þróunin á vinnumarkaði verið jákvæð. Þannig hafi til dæmis komið í ljós að ný ráðningarsambönd sem byggðu á ráðningarstyrkjum hafi haldið nokkuð vel þrátt fyrir truflanir vegna faraldursins.