Vinnslustöðin hagnaðist um níu milljónir evra, jafnvirði 1,2 milljarða króna, í fyrra. Til samanburðar hagnaðist útgerðin um 6,7 milljónir evra árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta jókst um 8,4 prósent á milli ára og nam 20,9 milljónum evra, jafnvirði 2,9 milljarða króna. Í fyrra var eitt besta árið í rekstri fyrirtækisins.

„Árangurinn náðist þrátt fyrir að engin loðna veiddist í fyrra og humarvertíðin væri ekki svipur hjá sjón. Mikilvæg forsenda góðrar rekstrarniðurstöðu er vel heppnaðar fjárfestingar undanfarinna ára,“ segir í tilkynningu.

750 milljón króna arðgreiðsla í haust

Útgerðin mun greiða hluthöfum fimm milljónir evra í arð, jafnvirði 750 milljóna króna. Miðað er við að greiða út arðinn í haust að því gefnu að lausafjárstaðan verði góð.

Stærstu hluthafar Vinnslustöðvarinnar eru Seil með 37 prósenta hlut og Fisk-Seafood með 30 prósenta hlut. Stærstu hluthafar Seilar eru Kristín Elín Gísladóttir, Haraldur Sveinbjörn Gíslason og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, forstjóri útgerðarinnar. Fisk-Seafood er í eigu KS, Kaupfélags Skagfirðinga.

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar, segir að nú sé verið að uppskera af uppbyggingu undanfarinna ára. Á síðastliðnum fimm árum hafi Vinnslustöðin fjárfest fyrir 86 milljónir evra eða 11,3 milljarða króna á gengi hvers árs, þar af fyrir 69 milljónir evra eða 9,1 milljarð króna á gengi hvers árs í varanlegum rekstrarfjármunum, svo sem Breka VE, nýju uppsjávarfrystihúsi, nýrri frystigeymslu og endurnýjun í skipaflotanum.

„Ráðist var í þessar fjárfestingar með markvissum hætti en hóflegri skuldsetningu á hverjum tíma, það er að segja félagið hefur alltaf haft borð fyrir báru og arðgreiðsluhæfni félagsins var tryggð,“ segir hann.

Starfsmenn Vinnslustöðvarinnar voru 170 árið 2000 en 315 á árinu 2019. Þeir hefðu líklega verið um 350 ef loðna hefði veiðst og humar sömuleiðis.