Við stefnum hraðbyri að reiðufjárlausu samfélagi. Ef frá eru taldir þeir sem vilja helst ekki greiða skatta eru tæpast margir eftir sem taka ekki við rafrænum greiðslum fyrir vöru og þjónustu. Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að reiðufé leiki sífellt minna hlutverk í daglegum viðskiptum okkar en skriðþungi þessarar þróunar er nokkuð ljós.

Stafræn viðskipti eru mikil framför og gera okkur kleift að greiða og taka við greiðslum með þægilegri, aðgengilegri og fjölbreyttari hætti en áður. En slíkum þægindum fylgir þó ákveðin áhætta sem vert er að gefa gaum. Reglur um greiðslumat vegna stærri lána fá okkur til að staldra við og meta getu okkar til að endurgreiða lánsupphæðina og kostnaðinn sem henni fylgir. En aukið aðgengi neyslufjármögnunar og oft framsetning hennar krefst þess að við förum varlega í okkar daglegu innkaupum.

Við kassann í matvöruversluninni er mér boðið að taka lán fyrir langlokunni með því að þrýsta á einn takka. Þegar ég kaupi mér raftæki er því sem næst gengið út frá því að ég vilji dreifa greiðslunni og borga 20-30% meira fyrir vöruna en verðmiðinn segir til um. Heimildin á debetreikningnum er ekki eign okkar og greiðsludreifing er ekki ókeypis. En þegar við finnum ekki fyrir því að seðlunum í veskinu okkar fækki og aðgengið að lánsfé er orðið þetta gott reynir hreinlega heilmikið á sjálfsagann.

Mér er minnisstætt þegar einn af reyndari bakvörðum Vesturbæjarins spurði á miðri síðdegisæfingu hvort einhver bankaútibú væru opin, hann væri nefnilega að fara í skemmtiferð til útlanda um morguninn og væri ekki búinn að redda sér yfirdrætti. Í dag hefði hann getað reddað sér í hvelli í símanum og varla misst mínútu úr æfingunni. Það hefði auðvitað verið þægilegra fyrir hann við þessar aðstæður en aðalatriðið er að hann hefði ekki átt að bóka sér utanlandsferð ef hann átti ekki fyrir henni. Þetta aukna aðgengi gerir þann þankagang enn hættulegri að það sé sjálfsagt mál að fjármagna neyslu og skemmtanir með lánum.

Lögmálin um gildi sparnaðar og fyrirhyggju eru ekki ný en mögulega mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka.