Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval útsýnar, segir að treysta eigi einstaklingnum hvort hann vilji ferðast eða ekki og að ekki eigi að beita harðari sóttvarnaraðgerðum en nauðsynlegt sé. Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld.

„Ég er ekki dómbær á sóttvarnaraðgerðir þar sem ég er ekki sérfræðingur á því sviði. Ég treysti fagaðilum en ég vil líka treysta einstaklingnum hvort hann vilji ferðast eða ekki og meta það hvort hann uppfylli þau skilyrði. Mér finnst ekki gott að hvetja til þess að allir eigi að vera heima og loka sig inni. Ég tel það ekki vera gott.“

Aðspurð um hvaða áhrif faraldurinn hafi haft á fyrirtækið segir Þórunn að þær hafi haft sín áhrif. „Þetta hefur haft þau áhrif að salan hefur minnkað. Hvort sem það er í veitingageiranum eða öðrum geirum þá ef það er verið að hvetja fólk til að fara ekki á meðal fólks eða ekki að ferðast þá mun það koma til með að hafa áhrif á söluna. Það er einnig mikilvægt að ríkisstjórnin hugsi fram í tímann þegar hún tekur svo íþyngjandi ákvarðanir og taki tillit til þess hvaða áhrif þetta mun hafa mánuði fram í tímann en ekki bara eina viku.“

Í þættinum var einnig rætt um hvort það sé ferðahugur í Íslendingum um þessar mundir, stöðu ferðaþjónustufyrirtækja, aðgerðir stjórnvalda og horfurnar framundan.