Lilja Dögg Alfreðsdóttir, nýr menningar- viðskipta- og ferðamálaráðherra vill tengja betur saman menningu og ferðaþjónustu og nefnir í því samhengi að efla þurfi söfnin. Þetta sagði hún í viðtali í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld.

„Ég tel að það þurfi að tengja betur saman menningu og ferðaþjónustu og ég tel að í því felist mikil tækifæri. Það er til að mynda hægt að nýta söfnin okkar betur en við erum með mjög öflugt fólk á þeim vettvangi. Ég nefni sem dæmi Hús íslenskunnar sem er að rísa og þar verða handritin okkar geymd og það eru eflaust margir sem vilja skoða þau. Síðan eru miklir möguleikar í þróun á sýndarveruleika á söfnum.“

Aðspurð hvort stjórnvöld muni ráðast í aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja segir Lilja að það að hætta við gistináttaskattinn hafi verið liður í því.

„Eins og stendur í fjárlagafrumvarpinu höfum við hætt við gistináttaskattinn eða ákveðið að fresta honum og það er einn liður í því. Síðan var ráðist í umfangsmikla aðgerðaráætlun en við vöktum stöðu ferðaþjónustunnar mjög vel enda skiptir hún miklu máli í viðspyrnunni. Það eru miklar gjaldeyristekjur sem koma frá þessum geira og við þurfum að eiga gott samtal við aðila í greininni.“

Aðspurð hvort stjórnvöld hafi gengi of langt í takmörkunum á landamærum í ljósi þess að við séum með hörðustu takmarkanir á landamærum meðal nágrannaþjóða segir Lilja að huga þurfi að jafnvægi í þeim efnum.

„Nei, ég tel ekki að stjórnvöld hafi gengið of langt. Það þarf að vera ákveðið jafnvægi í sóttvarnaraðgerðum því hvað gerist ef við missum faraldurinn frá okkur og verðum eldrauð. Það er ekki gott fyrir ferðaþjónustuna. Það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki en jafnframt þarf að bregðast við og taka ákvarðanir þegar sú staða kemur upp.“

Í þættinum voru ýmis fleiri mál rædd og má þar helst nefna áherslur Lilju í nýju ráðuneyti, vinnumarkaðinn, sölu bankanna og menningu.