Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, nýsköpunarráðherra, áformar stofnun frumkvöðlasjóðs sem mun hafa 2,5 milljarða króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn, sem mun bera nafnið Kría frumkvöðlasjóður, mun fjárfesta í svokölluðum vísisjóðum. Þá verður einnig lagt fram frumvarp um auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísissjóðum.

Vísisjóðir (e. venture capital) eru sérhæfðir fjárfestingasjóðir, þar sem fjárfestar með reynslu og þekkingu af sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, fjárfesta á fyrstu stigum þróunar. Þessir sjóðir eru fjármagnaðir af öðrum fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum, bönkum, eða tryggingarfélögum.

Á Íslandi, miðað við önnur lönd, er umhverfi þessara fjárfesta einsleitt, þ.e.a.s. það eru fáir aðilar sem taka þátt. Síðustu ár hafa einungis lífeyrissjóðir, bankar og einstaklingar tekið þátt í fjármögnun sjóða af þessu tagi.

Aðgerð nýsköpunarráðherra snýr að því að koma á fót Kríu frumkvöðlasjóð. Sjóðurinn hefur þann tilgang að vera hvati vísifjárfestinga. Í fjármálaáætlun ríkissjóðs er gert ráð fyrir samtals 2,5 milljörðum króna á næstu þremur árum til að fjármagna sjóðinn.

Sjóðsstjórar vísisjóða á Íslandi geta, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fengið fjárfestingu frá Kríu frumkvöðlasjóði. Aðgerðin er byggð á aðferðarfræði annarra þjóða sem hafa stutt við og eflt fjárfestingarumhverfi sprotafyrirtækja með þátttöku ríkisins á svipaðan hátt, eins og Ísrael, Nýja Sjáland, Svíþjóð, Danmörk og Finnland.

Sjóðir sem sækja um stuðning frá Kríu munu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. um lágmarksstærð, að markmið þeirra sé að fjárfesta í frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækjum sem stefna á alþjóðlegan markað og vöxt, að aðrir fjárfestar á markaði leggi til ákveðið lágmarks fjármagn og að reynsla sé í sjóðnum sem styðji við markmið hans.

Áætlað er að frumvarpið verði samþykkt í vor og sjóðurinn geti þá byrjað að taka við umsóknum haustið 2020. Fyrsta mótframlag er áætlað 2021.

Auka heimildir sjóðanna

Þá er stefnt að því að leggja fram frumvarp um auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum upp í 35 prósent. Í dag mega lífeyrissjóðir eiga allt að 20 prósent í vísisjóðum og þarf því aðkomu að lágmarki fimm lífeyrissjóða þegar stofna á sjóð. Með breytingunni þyrftu færri lífeyrissjóðir að hafa aðkomu að sjóði sem myndi auðvelda fjármögnun slíkra sjóða.

Skattalöggjöfin tekin í gegn

Auk þess er hafin vinna í fjármálaráðuneytinu við að skoða möguleika á að breyta skattalöggjöfinni með það að markmiði að rýmka meðferð kauprétta og hlutabréfa til aðlögunar að þörfum nýsköpunarfyrirtækja.

Lagt er til að liðkað verði fyrir skiptum á hlutabréfum, þ.e. hlutabréf fyrir hlutabréf (share for share) og að þau verði skattfrjáls fyrir bæði einstaklinga og félög. Einnig er lagt til að núgildandi reglur um frestun á skattalegri meðferð kauprétta verði ekki einskorðaðar við starfsmenn viðkomandi félaga heldur nái einnig til stjórnarmanna, ráðgjafa og annara viðsemjenda félagsins.

Þá er lagt til að reglur um skattlagningu á breytanlegum skuldabréfum séu rýmkaðar. Í því felst að hagnaður eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutafé á lægra verði en gangverð bréfa viðkomandi félags, sé frestað fram að sölu hlutabréfanna, óháð því hvort viðkomandi eigandi sé einstaklingur eða ekki.