Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist vona að sala ríkisins á Íslandsbanka geti hafist á næstu vikum. Þetta sagði Bjarni í viðtali við Ríkisútvarpið.

„Ég vonast til þess að við getum á næstu vikum þess vegna látið á það reyna hvort við fáum tillögu frá Bankasýslunni og lagt fyrir þingið áætlun um það hvernig verði farið í það mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það fari að gerast.”

Bjarni var spurður hvort að Ísland væri of lítið fyrir samkeppni þriggja viðskiptabanka. Hann svaraði að flestir myndu í dag telja sameiningu banka andstæða samkeppnislögum en í augnablikinu væri verið að einblína á að losa um eignarhald ríkisins.

„Maður hefur auðvitað áhyggjur af þeirri samkeppnisstöðu sem þar kemur upp. Og það er það sem vegur á móti hagkvæmnirökunum,“ sagði Bjarni.

Eins og Markaðurinn greindi frá í haust horfir Bankasýsla ríkisins til þess að farin verði sú leið við næsta skref í söluferli bankanna að fjórðungshlutur verði seldur að lágmarki í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og tvíhliða skráningu á markað eða allt að hundrað prósenta hlutur með uppboðsleið þar sem aðrir bankar og fjárfestingasjóðir myndu gera tilboð í bankann.