Sigríður Theodóra Pétursdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Brandenburgar, segir fátt skemmtilegra en að fara til Parísar með engin önnur plön en að ganga um göturnar og njóta, setjast á einhver kaffihús og helst týnast þannig að maður uppgötvi nýjar götur og hverfi.
Hvernig er morgunrútínan þín?
Í myrkrinu sem er núna gefst ekki mikill tími til að vera með rútínu fyrir vinnu þar sem rúmið og sængin heilla oft mikið á morgnana. Rútínan er því kapp við klukkuna um að vera tilbúin fyrir vinnu á sem skemmstum tíma.
Hvaða áskoranir eru fram undan?
Auglýsingastofur vinna á síbreytilegum markaði og það eru stöðugar áskoranir.
Út frá auglýsingamarkaðnum lýtur ein helsta áskorunin að því hvert birtingar á auglýsingum stefna og fagmennska þeim tengd. Sum fjölmiðlafyrirtæki eru að draga sig út úr almennum mælingum sem gera kaupendum auglýsinga erfiðara fyrir að hámarka birtingarfé, vinna út frá góðum gögnum og tryggja að auglýsingar birtist á réttum stöðum fyrir markhópinn. Þetta er mjög mikilvægt, fyrirtæki og fjölmiðlar verða að átta sig á mikilvægi samræmdra mælinga hjá miðlum til að tryggja fagmennsku tengda birtingum. Alls staðar erlendis er þróunin í átt að meiri gögnum og upplýsingum. Þangað viljum við stefna.
Önnur stór áskorun er að mikið er um að fyrirtæki vilji fara í svokallað „pitch“ án þess að greiða fyrir það. Verðmætasta auðlind auglýsingastofa er hugvitið og það á ekki að vera gefins. Við þurfum að átta okkur á virði góðra hugmynda því þær skila árangri.
Brandenburg var valin auglýsingastofa ársins nýlega í fjórða skipti. Það var sérstaklega ánægjulegt að við mældumst hæst í öllum þáttum sem lágu að matinu. Það er mikil áskorun að viðhalda velgengninni og vera leiðandi á íslenskum auglýsingamarkaði. Liður í því hjá okkur er aukin áhersla á ráðgjöf, stefnumótun og vörumerkjastrategíu. Við verðum vör við aukna samkeppni frá erlendum aðilum en við vitum að íslenskar auglýsingastofur búa yfir mikilli þekkingu og reynslu sem íslensk fyrirtæki verða að nýta. Það er alltaf áskorun að sýna viðskiptavinum okkar virðisaukann í því að vinna með okkur og fjárfesta í markaðsmálum og uppbyggingu vörumerkja til langs tíma.
Ef þú þyrfti að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?
Þegar stórt er spurt. Það var aldrei á planinu í námi að vinna á auglýsingastofu heldur lá leiðin í starf tengt flugi. Lífið leiðir mann hins vegar oft á brautina sem maður nýtur sín á og mér finnst ég vera heppin að vinna í svona fjölbreyttum og skemmtilegum geira. En ef ég þyrfti að leita annað þá heillar flugbransinn alltaf og fyrirtæki tengd því.
Hver er þín uppáhaldsborg?
Ég hef verið mikið í Frakklandi, bæði í fríum og var þar í framhaldsnámi. Bjó í Toulouse sem er yndisleg borg að búa í. En uppáhaldsborgin er París. Er alltaf jafn skemmtileg, hvort sem þú ert með einhverjum eða ein. Þegar maður vinnur í miklu áreiti er fátt skemmtilegra en að fara til Parísar með engin önnur plön en að ganga um göturnar og njóta, setjast á einhver kaffihús og helst týnast þannig að maður uppgötvi nýjar götur og hverfi.
Helstu drættir
Nám: BA-próf í íslensku og MA-gráða í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Sérhæft meistarapróf í markaðslegri stjórnun og samskiptum frá Toulouse Business School.
Störf: Airbus A350 samskiptateymi 2013. Viðskiptastjóri á Brandenburg 2014–2019. Aðstoðarframkvæmdastjóri Brandenburgar frá 2020. Sit í stjórn SÍA (Samband íslenskra auglýsingastofa) og ÍMARK.