Mikilvægt er að fyrirsjáanleiki sóttvarnaaðgerða verði meiri, svo Ísland eigi möguleika á því að taka á móti ferðamönnum á næsta ári, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Ice­landair Group.

Bogi var einn frummælenda á netráðstefnu Ferðamálastofu í gær. Bogi segir að flugfélagið hafi þegar útbúið flugáætlun fyrir sumarið 2021: „Til þess að hún gangi eftir og til þess að komi hingað einhverjir ferðamenn, þá verður að vera einhver fyrirsjáanleiki hvað varðar reglur á landamærunum hér á Íslandi. Ef að reglurnar verða óbreyttar eins og þær eru í dag og það er það sem okkar samstarfs­aðilar úti í heimi gera ráð fyrir, þá mun okkur ekki takast að selja neinum ferðamanni að koma til landsins,“ sagði forstjórinn.

Hann lagði einnig áherslu á það að mikilvægt væri að koma fyrirkomulagi sóttvarna á hreint sem fyrst, enda væru ferðaþjónustu­aðilar úti í heimi að skipuleggja næsta sumar um þessar mundir. Bogi sagði að ferðamenn gætu til dæmis framvísað skimunarvottorði frá heimalandinu við komu til Íslands, farið í aðra skimum við komu og fengið niðurstöðu eftir nokkra klukkutíma: „Við gætum þá sagt að þetta yrði í versta falli þannig næsta sumar. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fljótt fram frá stjórnvöldum, hvernig þetta verður á næsta ári,“ sagði Bogi Nils.

Meðal forsendna fjárlaga ársins 2021 er að 900 þúsund ferðamenn komi til landsins á árinu, en Samtök ferðaþjónustunnar hafa sagt að tvöföld skimum á landamærunum, ásamt fimm daga sóttkví á milli, útiloki slíkt umfang ferðaþjónustu á næsta ári.