Ríkisendurskoðun hefur óskað eftir því við forsvarsmenn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að kostnaður við rekstur fyrirtækisins verði sundurliðaður eftir kostnað vegna sölu á áfengi annars vegar og tóbaki hins vegar. Þetta staðfesti Ríkisendurskoðun við Markaðinn í gær.

Áfengissala á árinu 2019 nam tæplega 27,3 milljörðum króna en tóbakssala hljóðaði upp á 9,6 milljarða. Hagnaður ársins 2019 var ríflega einn milljarður.

Í ársreikningnum kemur ekki fram hver aðgreindur kostnaður vegna áfengis- og tóbakssölu er, en takmörkuð dreifing á tóbaki og fá stöðugildi tengd þeim hluta starfseminnar gefa sterklega til kynna að hagnaður af tóbakssölunni standi undir töluverðu tapi af áfengishlutanum, samkvæmt heimildarmönnum Markaðarins.

Ætla má að áfengishluti ÁTVR hafi verið rekinn með tapi upp á ríflega 200 milljónir króna á árinu 2018, á meðan tóbakssalan skilaði hagnaði upp á 1,3 milljarða, samkvæmt mati Arnars Sigurðssonar, sem er víninnflytjandi. „Í lögum um ÁTVR segir að fyrirtækið skuli starfa með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og vinna gegn skaðlegri neyslu áfengis. Niðurgreiðsla á sölu áfengis fyrir atbeina tóbakssölu getur varla samræmst þessu markmiði laganna,“ segir Arnar í samtali við Markaðinn.

Samkvæmt núverandi lögum hvílir ekki lagaskylda á ÁTVR að vera með fjárhagslegan aðskilnað á bókhaldi milli smásölu á áfengi og tóbaki. Fyrirtækið gefur upp aðskildar sölutölur, en ekki aðfangakostnað. Ekki náðist í Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra og fjölmiðlatengilið ÁTVR, við vinnslu fréttarinnar.