Ferða-, viðskipta- og menningarmálaráðherra segist vera hlynntur því að gera breytingar til að stuðla að aukinni samkeppnishæfni. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að grípa þurfi til aðgerða ef ekki eigi illa að fara.

Íslendingar reka lestina í samanburði við Norðurlöndin þegar kemur að samkeppnishæfni. Ísland er í 16. sæti í úttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það vera mikil vonbrigði hversu aftarlega á merinni við séum þegar kemur að samkeppnishæfni. Það komi bersýnilega í ljós í mælingum á samkeppnishæfni á hverju einasta ári að Ísland sé að dragast aftur úr.

Halldór Benjamín Þorbergsson, Framkvæmdastjóri SA.

„Við erum ekki bara eftirbátur Norðurlanda heldur margra ríkja innan OECD. Það þarf að einfalda fólki og fyrirtækjum að hefja rekstur og skapa verðmæti og störf. Við sjáum þetta meðal annars í áformum til lagasetningar á þingi til að takmarka erlendar fjárfestingar,“ segi Halldór og bætir við að Samtök atvinnulífsins hafi lengi talað um að það verði að einfalda regluverk og gera fyrirtækjum og fólki auðveldara fyrir.

„Við erum að flækja undirstöðu verðmætasköpunar alltof mikið og það þarf að stíga af krafti inn í þessa þróun ef ekki á illa að fara.“

Lilja Alfreðsdóttir, ferða-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að vilji sé, af hennar hálfu, til að bæta þessa stöðu. „Samkeppnishæfni skiptir öllu máli til þess að auka lífskjör ríkja. Við þurfum alltaf að vera á tánum varðandi samkeppnishæfni og við sjáum að við getum bætt nokkra þætti hjá okkur í þessum efnum,“ segir Lilja og nefnir í því samhengi erlenda fjárfestingu.

Lilja Alfreðsdóttir, ferða- viðskipta- og menningarmálaráðherra.

„Við þurfum að skýra það umhverfi enn frekar. Ég er mjög hlynnt erlendri fjárfestingu í þjónustu og framleiðslu, en hins vegar þurfum við að fara varlega varðandi auðlinda- og innviðakerfin okkar.“

Lilja bætir við að við séum sterk hvað varðar samfélagslega innviði. Við séum aftur á móti að sjá afturför í alþjóðaviðskiptum og alþjóðlegri fjárfestingu. „Við erum um þessar mundir að vinna með Kauphöllinni til þess að skoða möguleikana til að auka erlenda fjárfestingu hér á landi og stuðla að góðu aðgengi fyrirtækja að erlendu fjármagni.“

Hún segir jafnframt að mikilvægt sé að auka aðgengi fyrirtækja hér á landi að erlendum sérfræðingum. „Í þeim málum vil ég horfa til Kanada. Þeir hafa gjörbylt kerfinu sínu. Áður tók sex mánuði hjá þeim að afgreiða umsóknir um atvinnuleyfi. Nú tekur það aðeins 10 daga. Við þurfum að skoða breytingar í þessum efnum.“