Stafræna auglýsingastofan Sahara hyggst opna útibú í Orlando í Flórída í Bandaríkjunum.

Davíð Lúther Sigurðarson, stofnandi og meðeigandi Sahara, segir að með opnun útibúsins vilji fyrirtækið vera í nálægð við sína helstu viðskiptavini og auglýsingafyrirtæki. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut kukkan 19:00 í kvöld.

„Við þurfum að þjónusta okkar viðskiptavini og vera á sama stað og önnur stór auglýsingafyrirtæki erlendis. Fyrirtæki eins og Facebook, Instagram og öll þessi stóru fyrirtæki eru í Bandaríkjunum,“ segir Davíð og bætir við að með staðsetningunni fylgi aðgangur að hinum ýmsu miðlum sem ekki er unnt að fá á Íslandi.

„Við höfum fundið fyrir því síðustu 5 eða 6 ár að við erum eftirbátur þegar kemur að aðgangi að auglýsingaplatformum. Þannig við þurfum að fara nær þessum fyrirtækjum til dæmis bara með því að fá aðgang að miðlum á borð við Pintrest, TikTok og Spotify en við höfum ekki aðgang að þessum miðlum hér á landi.“

Hann segir jafnframt að á undanförnum misserum hafi erlendum viðskiptavinum fyrirtækisins fjölgað og því þurfi að nýta þau tækifæri sem felast í opnun útibúsins.

„Við Íslendingar þekkjum Orlando vel því margir hafa ferðast þangað. Þarna úti eru mörg frábær fyrirtæki og einnig góðir starfsmenn með mikla reynslu. Við verðum að nýta þetta tækifæri til að þjónusta okkar viðskiptavini enn betur hvort sem það er á Íslandi eða erlendis."

Aðspurður hvort erfitt hafi verið að fá rekstrarleyfi í Bandaríkjunum segir hann að ferlið hafi verið langt og strangt.

„Þetta reyndist frekar erfitt og kom mér svolítið á óvart en þetta er allt upp á tíu núna og gengur vel.“