Gísli Konráðsson er einn af fjórum stofnendum Arctic Theory, íslensks tölvuleikjafyrirtækis sem stofnað var í júní 2020 af honum, Matthíasi Guðmundssyni, Snorra Sturlusyni og Jóni Bjarna Bjarnasyni, og deila þeir yfir 100 ára samanlagðri reynslu af tölvuleikjum sín á milli.

Stofnendurnir fjórir hafa einnig komið að nokkrum metnaðarfyllstu tölvuleikjum síðustu áratuga, þar á meðal EVE Online og Sims og er starfsemin rekin úr litlu húsi sem byggt var árið 1908 við Strandgötu í Hafnarfirði.

„Við viljum hafa þetta umhverfi heimilislegt því okkur finnst mjög mikilvægt að fólki líði vel í vinnunni. Við erum að sjálfsögðu að vinna sem miklir fagmenn og brautryðjendur en á sama tíma skiptir vinnustaðamenning miklu máli. Við lítum á skrifstofuna hér sem hjartað, en við viljum fá fólk úti um allan heim með mismunandi bakgrunn,“ segir Gísli.

Hann bendir á að hugmyndafræði fyrirtækisins byggist fyrst og fremst á þremur þáttum: sköpunargáfu, samvinnu og samfélagi og bætir við að Covid-19 hafi einnig spilað stóran þátt í breyttum tölvuleikjaheimi þar sem fólk leitaði oft til sýndarheima fyrir nýsköpun í faraldrinum eftir að hafa misst aðgang að raunheiminum.

Á sama tíma er Arctic Theory frábrugðið mörgum stærri tölvuleikjaframleiðendum að því leytinu til að fyrirtækið vill frekar tryggja sér langtímaviðskiptavini með tölvuleik sínum heldur en skjótfenginn gróða.

Fyrr á árinu tryggði Arctic Theory sér 260 milljóna króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II sem stýrt er af Brunni Ventures og Landsbréfum og hefur fyrirtækið einnig fengið 50 milljóna styrk frá Rannís fyrir þróun á nýrri tæknilausn fyrir tölvuleik sinn.

Tölvuleikurinn ber vinnuheitið Annex þar sem spilari leiðir persónu sína í gegnum framtíðarheim sem hefur upplifað einhvers konar dómsdagsörlög. Innblásturinn að umhverfi leiksins kemur mikið frá íslenskri náttúru og norðurslóðum og er leikurinn keyrður á hinum svokallaða samtengda heimi eða „Single-Shard“ líkani þar sem allir spila í sama heimi frekar en á mismunandi netþjónum.

Hlutverk spilarans er þá að endurbyggja samfélagið og ólíkt mörgum slíkum bardaga- og hamfaraleikjum byggir velgengni í Annex mikið á góðu samstarfi milli þeirra sem spila leikinn í rauntíma.

„Við viljum vera með samvinnu frekar en samkeppni og til þess að búa til leik sem lifir í mörg ár eins og EVE Online og Minecraft, þar sem samvinnuumhverfið er svo sterkt, þá viljum við ýta undir það að styrkja tengsl á milli fólks sem verður til þess að það eyði meiri tíma í leiknum.“

Það eru svo margir sem vilja setja samasemmerki á milli tölvuleikja og ofbeldis og að blóðþrýstingurinn þurfi að vera alveg í toppi.

Leikurinn leyfir þar með leikmönnum að búa til sinn eigin fullkomna heim í ákveðnum tölvuleikjasandkassa.

Þrátt fyrir mikla spennu í tölvuleikjaheiminum hefur Annex líka hlotið ákveðna gagnrýni fyrir að sleppa þessum samkeppniseiginleika sem einkennir marga leiki þar sem persónan þarf að lifa af.

„Það eru svo margir sem vilja setja samasemmerki á milli tölvuleikja og ofbeldis og að blóðþrýstingurinn þurfi að vera alveg í toppi. En það sem við viljum segja er að þessi nýja kynslóð tölvuleikja fjallar miklu meira um að vera saman og eiga samskipti.

Það sem ég sé er að þessi tilfinning er miklu langlífari en samkeppnistilfinningin af því í fæstum tilfellum endar þú á því að þér líði illa eftir að hafa spilað Sims. En þér líður hins vegar illa ef þú tapar í World of Warcraft eða ert skotinn því það er svo neikvæð persónuleg upplifun að þú sért verri en einhver annar í leiknum,“ segir Gísli.

Tæknilausnin sem Arctic Theory þróaði einnig snýr að ákveðinni veður- og landslagshermun þar sem veður breytist eftir því hvar spilarinn er í leikjaheiminum og geta leikmenn einnig haft áhrif á landslagið í kringum sig.

Ef leikmaður til dæmis heggur niður tré mun það vaxa aftur hægt og rólega. Ef stíflu er komið fyrir á einum stað mun að sama skapi vatnsmagnið minnka á öðrum stað og ef leikmenn byrja á ákveðnu verkefni og hætta svo skyndilega viðhaldi á því mun það hægt og rólega brotna niður og hverfa.

Gísli bendir á að nútíma tölvuleikir virki einfaldlega eins og ný útgáfa af samfélagsmiðli. Þar sem eldri kynslóðir eru á Facebook og Instagram, hafa framleiðendur tekið eftir því að unga fólkið kemur heim úr skólanum og vinnur heimavinnu sína í gegnum spjall-flipann í tölvuleiknum Fortnite.

Á undanförnum árum hefur fjölspilunarmenningin stækkað úr afmörkuðum hópi áhugamanna og blandast saman við samfélagsmiðla til að þróa nýjan raunveruleika.

Áætluð prufuútgáfa af leiknum verður gefin út á næsta ári og mun Arctic Theory viðhalda og breyta leiknum eftir þörfum.

Tækifæri fyrir ráðningar hafa þar með opnast og leitast félagið nú við að ráða í um 20 nýjar stöður, þar á meðal markaðsstjóra, listrænan stjórnanda, yfirframleiðanda, leikjahönnuð, leikjaforritara, framendaforritara, bakendaforritara og grafískan hönnuð.

„Ég trúi því að þetta sé grunnurinn að næstu stóru umturnun á því sem við þekkjum sem tölvuleiki. Þetta sambland af samfélagsmiðlum og tölvuleikjum mun búa til eitthvað nýtt sem ég hef kallað samfélagsheima og við hlökkum til að fá fólk í þetta sem er jafn spennt fyrir þessu og við,“ segir Gísli.