Þrátt fyrir góða ávöxtun lífeyrissjóða í fortíðinni er mikilvægt að stuðla að umræðu um hvert ávöxtunarviðmið sjóðanna eigi að vera í framtíðinni. Þetta segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Í nýlegri ársskýrslu samtakanna er bent á að vaxtastig í helstu viðskiptalöndum Íslands hafi farið lækkandi undanfarin ár og fátt bendi til þess að breytingar verði á því á næstu árum.

„Skoða þarf í fullri alvöru möguleikann á því að tengja viðmiðunarávöxtun sjóðanna betur við vaxta­umhverfið á Íslandi og á erlendum mörkuðum þannig að sjóðirnir séu betur í stakk búnir til að bregðast við breytingum á markaðsumhverfi. Einnig þarf að skoða hvort festa eigi ávöxtunarviðmið til skemmri tíma í senn og endurskoða á nokkurra ára fresti,“ segir í skýrslunni.

Ef langtímaávöxtun verður lægri en ávöxtunarviðmiðið, sem er 3,5 prósent, þarf að skerða réttindin, en auka þau ef ávöxtun verður hærri. Þannig geta mismunandi kynslóðir borið meira eða minna úr býtum eftir því hvort framtíðarávöxtun verður hærri eða lægri en viðmiðið.

Lífeyrissjóðir hafa framan af verið heldur varfærnir í afstöðu sinni til breytinga á ávöxtunarviðmiðinu. Á síðasta ári náðu lífeyrissjóðirnir yfir 9 prósenta raunávöxtun og ef skoðaðar eru tölur yfir 5 og 10 ára ávöxtun sjóðanna þá hafa þeir að meðaltali náð yfir 5 prósenta raunávöxtun á ári.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Fréttablaðið/Anton Brink

Spurð hvort orðalagið í ársskýrslunni sé merki um að afstaða lífeyrissjóða til ávöxtunarviðmiðsins sé að breytast, segir Þórey að málið snúist fremur um að vera vakandi fyrir þáttum sem hafa áhrif á lífeyrisskuldbindingar í framtíðinni.

„Það eru skiptar skoðanir á því hvort breytinga sé þörf og þess vegna er mikilvægt að taka umræðuna af alvöru, rýna í málefnið, greina það og meta hvort viðmiðið sé rétt stillt. Ávöxtunarviðmiðið hefur reynst vel – ávöxtun sjóðanna í fyrra var mjög há – en það þarf að endurspegla ávöxtun til lengri tíma litið“ segir Þórey.

Landssamtök lífeyrissjóða í samstarfi við KPMG og SFF héldu morgunverðarfund í síðustu viku þar sem rætt var um lágvaxtaumhverfið í víðu samhengi og þar með þýðingu þess fyrir lífeyriskerfið á Íslandi.