Iðn- og tækni­fræði­deild Há­skólans í Reykja­vík (HR) hefur skipað þrjú fagráð sem munu hafa að­komu að þróun náms við deildina. Hvert þeirra er skipað þremur ein­stak­lingum úr at­vinnu­lífinu.

Í til­kynningu frá HR kemur fram að mark­miðið sé að tryggja enn betur að námið svari þörfum at­vinnu­lífsins og að fyrir­tæki fái til sín út­skrifaða nem­endur með þá þekkingu sem krafist er í nú­tíma starfs­um­hverfi.

Hera Gríms­dóttir, for­seti iðn- og tækni­fræði­deildar HR, segir að fagráðin muni gegna mikil­vægu hlut­verki í skipu­lagningu náms við deildina og að fyrir­tæki geti einnig átt mikinn hag í stofnun fagráðanna en í gegnum þau geti þau komið sínum á­herslum á fram­færi. Þannig sé hægt að gæta þess að náms­fram­boð sé sniðið að því hverju er mest þörf á hverju sinn, á hverju fag­sviði.

„Sem dæmi má nefna að síðast­liðið haust hófst kennsla á nýrri náms­braut hjá okkur á upp­lýsinga­tækni í mann­virkja­gerð. Þar var verið að bregðast við á­kveðinni þörf eftir ítar­lega þar­fa­greiningu á markaði. Sú náms­braut hefur gengið mjög vel og greini­legt að þar vorum við að mæta á­kveðinni þörf fyrir sér­hæfða þekkingu og hæfni. Slíkt sam­tal við at­vinnu­lífið er alltaf í gangi og í sam­vinnu við ný­stofnuð fagráð erum við mjög opin fyrir því að stofna fleiri slíkar styttri náms­brautir,“ segir Hera.

Fagráðin eru alls þrjú.

Eru deildarráði til ráðgjafar

Auk þess að fylgjast með náms­fram­boði iðn- og tækni­fræði­deildar hafa fagráðin það hlut­verk að vera deildar­ráði til ráð­gjafar við að móta stefnu, á­herslur og fram­tíðar­sýn deildarinnar.

Hera segir að við­brögðin við stofnun fagráðanna hafi verið góð og að skila­boðin sem þeim hafi borist sé að þau séu góð fyrir bæði at­vinnu­lífið og há­skólann.

„Það er al­gjört lykil­at­riði fyrir okkur að vera í góðum tengslum við at­vinnu­lífið og við höfum farið ýmsar leiðir í að styrkja þau tengsl. Það má til dæmis má nefna að meiri­hluti kennara við deildina kemur úr at­vinnu­lífinu og nem­endur fara í starfs­nám út í fyrir­tækin og vinna í flestum til­fellum loka­verk­efni fyrir fyrir­tæki," segir Hera.

Fagráð bygginga­sviðs skipa:

* Magnea Huld Ingólfs­dóttir, byggingar­verk­fræðingur á sam­göngu- og um­hverfis­sviði Verkís

* Guð­bjartur Jón Einars­son, byggingar­verk­fræðingur hjá Mann­viti

* Sigurður Haf­steins­son, byggingar­tækni­fræðingur og eig­andi Vektors - hönnunar og ráð­gjafar

Fagráð raf­magns­sviðs skipa:

* Erla Björk Þor­geirs­dóttur, raf­magns­verk­fræðingur og fram­kvæmda­stjóri Verk­fræði­stofunnar Afls og Orku

* Gunnar Ingi Valdimars­son, raf­magns­tækni­fræðingur og sér­fræðingur á fram­kvæmda- og rekstrar­sviði Lands­nets

* Ingvar Bjarna­son, bygginga­fræðingur og verk­efnis­stjóri hjá Nova

* Ólafur Haukur Sverris­son, verk­fræðingur hjá Össuri

Fagráð vél- og orku­sviðs skipa:

* Smári Guð­finns­son, vél- og orku­tækni­fræðingur hjá Verk­fræði­stofunni EFLU

* Ás­grímur Sigurðs­son, vél- og orku­tækni­fræðingur og fram­kvæmda­stjóri við­halds og á­reiðan­leika hjá Alcoa Fjarða­áli

* Úlfar Karl Arnórs­son, vél- og orku­tækni­fræðingur og Team Lea­der, Mechani­cal Design hjá Völku